Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt skipstjóra í Vestmannaeyjum til að greiða 600 þúsund krónur í sekt fyrir að taka 243 kíló af slitnum humri og 20 kíló af slægðum skötusel framhjá vigt. Skipstjórinn sagði að hann og áhöfnin hefðu ætlað að hafa þennan fisk í soðið.
Fiskikar með humri og skötusel var sett í bíl þegar báturinn Gæfa VE 11 kom úr veiðiferð í júní árið 2008. Eftirlitsmenn Fiskistofu leituðu eftir aðstoð lögreglunnar og við skoðun í bílnum kom í ljós að í honum var 600 lítra kar með slitnum humri og ofan á þeim afla voru nokkrir skötuselir. Reyndist humarinn vera 243 kíló og skötuselurinn 20 kíló.
Skipstjórinn viðurkenndi, að þessi afli hefði ekki farið á vigtina. Í framhaldi af þessu var leitað í veiðarfærageymslu útgerðar skipsins og reyndust þar vera þrjár frystikistur fullar af humarhölum, samtal 256 kíló. Viðurkenndi skipstjórinn að þessi afli hefði ekki heldur farið á hafnarvogina.
Skipstjórinn sagðist ekki hafa brotið nein lög heldur hefðu hann og áhöfn hans nýtt sér þann rétt að taka með sér í soðið. Sagði hann, að þetta hefði verið umframafli sem hann hefði ella orðið að henda. Ekki væri venja að vigta slíkan afla. Þá hefði humarinn, sem var í frystigeymslunni, verið meðafli, sem hefði fengist í 15-20 veiðiferðum á fiskitrolli en ekki skráður í fiskidagbók.
Dómkvaddur matsmaður bar fyrir dómi, að það væri venjuhelgaður réttur áhafna fiskibáta og –skipa við Ísland að taka hluta aflans frá í soðið. Sá afli væri hvorki veginn né skráður í bækur skipanna þótt ótvírætt væri, að lög mæltu fyrir um slíkt.
Í niðurstöðu dómsins verði talið, að þótt það geti helgast af langri venju að áhafnir fiskiskipa geti tekið sér hluta aflans til eigin nota sé ljóst, að magn það af slitnum humri og slægðum skötusel sem skipstjórinn tók fram hjá vigt hafi verið langt umfram það sem hæfilegt geti talist. Var skipstjórinn því fundinn sekur um brot gegn lögum um stjórn fiskveiða. Útgerðarfélag bátsins var hins vegar sýknað af ákæru fyrir að hafa hagnast á öllu saman.