„Eins og 50 gamlárskvöld“

Eldgos á Fimmvörðuhálsi myndað í dag.
Eldgos á Fimmvörðuhálsi myndað í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það að sjá gosið í ljósaskiptunum er eins og að horfa á og upplifa fimmtíu gamlárskvöld í einu,“ segir Ragnar Axelsson (RAX) ljósmyndari Morgunblaðsins sem flaug yfir gossvæðið nú undir kvöld. Myndir úr fluginu eru ekki væntanlegar inn á netið fyrr en á morgun. 

Engin virkni er nú í eldri sprungu gosstöðvanna á Fimmvörðuhálsi en í sprungunni sem myndaðist fyrir helgi, gýs í tveimur gígum. Hraunið úr nýju sprungunni rennur sem fyrr í Hvannárgil. 

Ragnar hefur flogið yfir gossvæðið a.m.k. tíu sinnum á síðustu dögum til að mynda. Spurður hvort mikill munur sé á því sem fyrir augu beri svarar Ragnar því játandi og bendir sem dæmi á að nú megi sjá grænan lit í toppi kulnaða gígsins. 

„Það ætti náttúrlega að vera bannað að horfa á svona mikla fegurð,“ segir Ragnar og vísar þar til þess hversu tilkomumikil sjón það sé að sjá hraunfossinn renna niður í Hvannárgil. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert