Ekki vondum útlendingum að kenna

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra. mbl.is/Ómar

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði við fréttamenn í National Press Club í Washington í dag, að hann væri vongóður um að Íslendingar muni bráðlega ná samkomulagi í Icesave-deilunni.  Þá sagði hann að Íslendingar ættu sjálfir mesta sök á íslenska efnahagshruninu. „Við kennum ekki vondum útlendingum um vandamál okkar," hefur fréttaveitan Dow Jones eftir Gylfa.

Haft er eftir Gylfa, að íslensk stjórnvöld hafi ekki fengið nein fyrirheit, hvorki munnleg né skrifleg, um að samningar takist í bráð í Icesave-deilunni en hann sé nokkuð vongóður um að samkomulag náist innan skamms.  Reutersfréttastofan hefur eftir Gylfa, að ekki hafi borið svo mikið á milli í deilunni þegar viðræðum var hætt í febrúarlok.

Þá sagðist hann einnig vonast til að efnahagsáætlun Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fari af stað aftur á þessu ári. Það væri talsvert áfall fyrir íslenskan efnahag ef lán fengjust ekki frá sjóðnum og ljóst að án þeirra yrði Ísland að grípa til gjaldeyrisvarasjóðs síns til að greiða af erlendum lánum sem eru með gjalddaga snemma árs 2012. 

Rannsóknarskýrslu Alþingis, sem verður birt á mánudag, bar á góma á fundinum. Gylfi sagðist ekki hafa séð skýrsluna en búast mætti við að þar birtist hrollvekjandi upplýsingar. 

Þegar Gylfi var spurður hverjum fjármálahrunið á Íslandi væri um að kenna svaraði hann að víða mætti leita að sökudólgum, svo sem í bankakerfinu, stjórnum fyrirtækja og stjórnmálakerfinu sem hefði gert einkafyrirtækjum að fara jafn kyrfilega um koll og raun bar vitni. 

Gylfi er sagður vera í Washington vegna viðræðna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka