Gagnrýna kostnaðarhækkarnir á flugfélögin

„Samtals má gera ráð fyrir að flugfélögin þurfi að borga …
„Samtals má gera ráð fyrir að flugfélögin þurfi að borga um 400 milljónir króna í aukin gjöld nú þegar á þessu ári,“ segja Samtök ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir áhyggjum af miklum kostnaðarhækkunum sem fylgja þeim gjaldskrárbreytingum sem samgönguráðherra samþykkti í síðustu viku. Samkvæmt breytingunni bætist við ný gjöld og þau sem fyrir séu hækki mikið.

Samtökin ítreka ályktun frá aðalfundi sínum þann 23. mars þar sem segir: „Í þeirri stöðu sem þjóðfélagið er í á að lækka skatta en ekki hækka. Þannig eykst eftirspurn og störfum fjölgar“.“

Þetta segja samtökin í tilkynningu. Þar segir ennfremur:

„Þannig hækkar flugverndargjald um 53%, fer úr 620 krónum í 950 krónur. Nýtt farþegagjald uppá 150 krónur á hvern farþega verður lagt á og nýtt leiðarflugsgjald verður jafnframt lagt á en það reiknast eftir þyngd loftfars og lengd flugs. Lendingargjöld í innanlandsflugi hækka jafnframt um 25%.
Samtals má gera ráð fyrir að flugfélögin þurfi að borga um 400 milljónir króna í aukin gjöld nú þegar á þessu ári til annarsvegar Keflavíkurflugvallar og hinsvegar til Flugstoða.

Þar sem gjaldskrárbreytingin tekur gildi eftir einungis 2 mánuði er ljóst að stór hluti þessa kostnaðar mun koma beint frá flugfélögunum, langt er liðið á aðalsölutímabil sumarsins og ekki eru möguleikar til að velta þessum hækkunum á þá farþega sem þegar hafa greitt fyrir sína ferð. Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt á það mikla áherslu að allar slíkar breytingar á gjalda og skattaumhverfi greinarinnar verði að koma með góðum fyrirvara, aðdragandi sölu á ferðaþjónustu er langur og því eru það mikil vonbrigði að samgönguráðherra hafi nú samþykkt þessa breytingu með svo stuttum fyrirvara.

Flugfélögin hafa farið í gegnum mjög erfitt tímabil með miklum kostnaðarhækkunum í öllum erlendum aðföngum og samdrætti í eftirspurn á undanförnum árum og því er svigrúm til frekari hagræðingar ákaflega lítið. Nú þegar kraftur er í sókn þessara fyrirtækja og verið er að bæta við nýjum áfangastöðum eru slíkar fyrirætlanir settar í uppnám með auknum gjaldtökum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka