Segir kröfugerð ekki studda rökum

Lárus Welding.
Lárus Welding. mbl.is/Kristinn

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, segir að kröfugerð skilanefndar bankans á hendur sér sé ekki studd haldbærum rökum.

Skilanefndin hefur höfðað skaðabótamál á hendur fyrrverandi eigendum og starfsmönnum Glitnis og krefst samtals 6 milljarða króna í bætur vegna lánveitinga til hlutafélagsins FS38 ehf. Það félag var í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, sem var í eigu Pálma Haraldssonar en er nú til gjaldþrotaskipta. 

Í yfirlýsingu, sem Lárus hefur sent frá sér, segir að í þessum og öðrum viðskiptum hafi starfsmenn Glitnis unnið af fullum heimildum og fullkomlega innan þeirra heimilda sem reglur bankans settu með það að markmiði að verja hagsmuni hans í því gríðarlega erfiða markaðsumhverfi sem ríkti sumarið 2008.

„Fyrir liggur að í þessum viðskiptum, sem voru að stærstum hluta framlenging á áður ótryggðu láni og að minni hluta ný lánveiting, batnaði heildartryggingastaða bankans verulega gagnvart þessum viðskiptavin.

Ég tel því kröfugerð bankans á hendur mér ekki studda haldbærum rökum og harma  sérstaklega að skilanefnd bankans kjósi að draga almenna starfsmenn bankans inn í þessi málaferli sem verða fyrirsjáanlega mjög tímafrek og kostnaðarsöm. Ég hef falið lögmanni mínum að gæta hagsmuna minna í málinu," segir Lárus og bætir við að hann muni ekki tjá sig frekar um málið opinberlega.

Fram hefur komið að skaðabótamálið er höfðað á hendur þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Pálma Haraldssyni, sem voru meðal helstu eigenda Glitnis gegnum FL Group, Lárusi og þremur öðrum starfsmönnum Glitnis, sem hafa að undanförnu starfað hjá Íslandsbanka. 

Fram kom í Morgunblaðinu í janúar, að skilanefnd Glitnis lagði fram 6 milljarða kröfu í þrotabú Fons vegna láns, sem veitt var til FS38 í júlí 2008. Þá sagði Pálmi Haraldsson, að fyrir þessu láni hefðu hlutabréf í félaginu Aurum Holding verið sett að veði. Þau hlutabréf eru einskis virði í dag, en Pálmi sagði að á þeim tíma hafi verðmat á hlutnum í Aurum bent til þess að bréfin stæðu fyllilega undir sér sem veð fyrir lánveitingunni.

Fons tókst einnig á hendur sjálfskuldarábyrgð upp á 1,75 milljarða vegna lánsins, en skiptastjóri Fons hefur samþykkt kröfu vegna þeirrar ábyrgðar.

FS38 lánaði FS37, sem síðar hét Stím, 2,5 milljarða til að kaupa hlutabréf í Glitni í nóvember 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert