Ríkisendurskoðun fer fram í skattahluta Baugsmálsins svonefnda í dag. Að sögn Helga Magnúsar Gunnarssonar, saksóknara efnahagsbrota, mun hann leggja fram greinargerð vegna kröfu sakborninga um frávísun málsins. Óvíst er hvort munnlegur málflutningur fari fram um kröfuna eða dómari málsins skeri úr án hans.
Málið er höfðað gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu Jóhannesdóttur, Tryggva Jónssyni, Baugi Group og Gaumi vegna meintra skattalagabrota.
Frávísunarkrafan er sett fram á þeim grunni að sakborningum hafi þegar verið refsað þegar ríkisskattstjóri ákvarðaði skattaðilunum álag eftir ákvæðum skattalaga. Meðal annars er vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem fram kemur að skattaálag jafngildi fullnaðarrefsingu.
Helgi Magnús bendir hins vegar á, að þó svo að hægt sé að nota dóminn sem fordæmi hafi álagið verið lagt á félögin, ekki einstaklingana, og þeim hafi því ekki verið gerð refsing.