Hópur vísindamanna frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands var á Fimmvörðuhálsi þegar ný sprunga opnaðist þar á miðvikudagskvöldinu í liðinni viku. Vísindamennirnir komu að sprungunni nokkrum andartökum eftir að hún opnaðist og fengu því afar gott tækifæri til að fylgjast með nýrri sprungu myndast.
Á þessum myndum sem Ingi Rafn Ólafsson, markaðs- og kynningarstjóri Verk- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, tók aðeins örfáum mínútum eftir að sprungan opnaðist, má sjá hvernig krafturinn í henni eykst smám saman. Hraunið sem kom upp úr nýju sprungunni var það seigt að vísindamennirnir töldu óhætt að fara býsna nærri, eins og myndirnar sýna, en þó aðeins í örstutta stund.
Mörg sýni voru tekin úr nýja hrauninu en sýnatakan fer þannig fram að vír með teini er kastað inn í hraunið og teinninn síðan dreginn út. Hraun sem loðir við teininn er síðan kælt og er síðar rannsakað á rannsóknarstofum Jarðvísindastofnunar. Sýni voru sömuleiðis tekin úr eldra hrauni en tilgangurinn var meðal annars að kanna hvort hraunið sé mismunandi að efnainnihaldi, eftir því hvar það kemur upp. Einnig vilja vísindamennirnir fylgjast með því hvort efnainnihaldið taki breytingum eftir því sem liðið hefur á gosið.
Tilgangurinn með þessu öllu saman er að auka skilning og þekkingu manna á eldgosinu. Af þessum sökum eru vísindamenn Jarðvísindastofnunar tíðir gestir við gosstöðvarnar og hópur þaðan er einmitt þar í dag.
Kristinn Garðarson, landfræðingur og kortagerðamaður hjá Morgunblaðinu, kom að einnig að sprungunni í þann mynd sem hún opnaðist. Myndir hans birtust á vef Morgunblaðsins á skírdag.