Hvalveiðar verði aðeins fyrir heimamarkaði

Hvalveiðiskip Hvals.
Hvalveiðiskip Hvals. mbl.is/ÞÖK

Bandaríkjastjórn ítrekar í skjali, sem birt er á heimasíðu Alþjóðahvalveiðiráðsins, að hún sé andvíg hvalveiðum, bæði í atvinnu- og vísindaskyni og muni ekki fallast á málamiðlun innan Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem felur í sér að hvalveiðibanni verði aflétt.  

Þetta kemur fram í umsögn Bandaríkjanna um málamiðlunartillögu, sem samin hefur verið af hópi tólf aðildarríkja  hvalveiðiráðsins og miðar að því að leysa deiluna um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Tilgangur tillögunnar er að auka verndun hvala og bæta stjórnun hvalveiða, annarra en frumbyggjaveiða. Hún gerir ráð fyrir takmörkuðum hvalveiðum Japana, Norðmanna og Íslendinga á tíu ára gildistíma samkomulagsins.

Umsagnir nokkurra ríkja við tillöguna hafa nú verið birtar á vef ráðsins. Í bandarísku umsögninni eru meðal annars gerðar ýmsar athugasemdir við tillöguna og lagt til, að þess verði krafist að allar afurðir, sem falla til við hvalveiðar, verði aðeins nýttar á heimamarkaði. 

Þá vilja Bandaríkin tryggja að ekki sé grafið undan friðun hvala í öðrum alþjóðasamtökum, svo sem CITES. Þar hefur Ísland gert fyrirvara við að ýmsar tegundir hvala séu skilgreindar sem dýrategundir í útrýmingarhættu. 

Tólf ríkja hópurinn, sem Ísland á sæti í, kemur saman til fundar í Washington í næstu viku. Ef samkomulag næst þar verður niðurstaðan lögð fyrir aðalfund Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní.

Athugasemdir við tillöguna 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert