Skeyttu engu um lánareglur

Í stefnu skilanefndar Glitnis á hendur fyrri eigendum og  starfsmönnum bankans, segir meðal annars, að þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson hafi í engu skeytt um lánareglur bankans og viðhaft grófar blekkingar um mikilvæg atriði.

Í stefnunni er þess krafist að  Jón Ásgeir, Pálmi, Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis og þrír aðrir starfsmenn bankans greiði skilanefnd Glitnis 6 milljarða króna í skaðabætur fyrir fjártjón, sem bankinn hafi orðið fyrir þegar hann veitti félaginu FS38, sem var dótturfélag fjárfestingarfélagsins Fons, lán í júlí 2008. 

Í stefnunni, sem er 32 blaðsíður að lengd, er farið yfir samskipti þeirra Jóns Ásgeirs og Pálma við starfsmenn Glitnis í aðdraganda þessarar lánveitingar. Er niðurstaðan meðal annars sú, að þeir Jón Ásgeir og Pálmi hafi, sem ráðandi hluthafar, mælt fyrir um það, að bankinn lánaði Fons eða félagi í eigu Fons fé, til að forða félaginu undan innheimtuaðgerðum af hálfu bankans, færa skuldbindingar Fons og Jóns Ásgeirs við bankann yfir á félagið FS38, sem hafi verið ógjaldfært, og að færa þeim Jóni Ásgeiri og Pálma reiðufé frá bankanum án þess að þeir tækju á sig skuldbindingu á móti.

Þessu hafi þeir Jón Ásgeir og Pálmi komið til leiðar með fyrirmælum til Lárusar og fulltingi annarra starfsmanna, að rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu Fons væru settar í lánabeiðni sem lögð var fyrir áhættunefndarfund. Þannig hafi þeir Jón Ásgeir og Pálmi haft frumkvæði að, hvatt til og hlutast til um með beinum hætti, í samráði við aðra stefndu í málinu, að knýja fram lánveitinguna til FS38 með fullri vitneskju um að það félagværi ógjaldfært og eignalaust og að tryggingar fyrir endurgreiðslu láns til félagsins væru fjærri því að standa undir henni. 

Þeim Jóni Ásgeiri og Pálma er stefnt fyrir að valda Glitni tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Fyrrverandi starfsmönnum bankans er stefnt fyrir að hafa valdið bankanum tjóni með háttsemi sinni þar sem þeim hefði  sem reyndum bankamönnum átt að vera ljóst að sú ákvörðun að lána ógjaldfæru félagi án fullnægjandi veðtrygginga myndi leiða til fjártjóns fyrir bankann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert