Verksmiðja frá Noregi til Íslands

Verksmiðjuhús Becromal á Krossanesi.
Verksmiðjuhús Becromal á Krossanesi. mbl.is/Skapti

Ítalska fyrirtækið Becromal, sem er að byggja upp aflþynnuverksmiðju við Krossanes í Eyjafirði, er að flytja verksmiðju sína frá Nofodden í Noregi til Íslands. Að sögn norsks héraðsfréttamiðils missa 74 vinnuna í Nofodden vegna þessa á árinu.

Fram kemur á vefnum telen.no, að þegar hafi 12 vélar verið fluttar úr verksmiðjunni í Notodden til Íslands og búið eigi að vera að flytja allar vélarnar til Íslands fyrir lok þessa árs.

Telen.no segir, að eigendur verksmiðjunnar muni formlega tilkynna starfsfólki um þetta í dag og vilji því ekki tjá sig um málið. Hins vegar hafi Ludvig Rademacher, verksmiðjustjóri, tilkynnt verkalýðsfélögum um þetta í gær.

Blaðið hefur eftir Tommy Folserås, aðaltrúnaðarmanni, að þessar fréttir hafi í raun ekki komið á óvart en vitað var að stjórn verksmiðjunnar hafi reynt að gera hagstæða orkusamninga við norsk stjórnvöld en án árangurs. 

Notodden er skammt vestan við Ósló.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert