Fjárfestar hafa áhyggjur

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra hefur átt marga fundi í Bandaríkjunum í …
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra hefur átt marga fundi í Bandaríkjunum í vikunni. mbl.is/Ómar

Enn er áhugi meðal erlendra fjárfesta á Íslandi en þeir hafa áhyggjur af ýmsum þáttum hér, m.a. að lánshæfi Íslands verði lækkað enn frekar. Þetta segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hafa komið fram í samtölum sínum við fjárfesta og fleiri aðila í Bandaríkjunum síðustu daga. Hins vegar muni samkomulag um aðra endurskoðun AGS hækka lánshæfiseinkunnir Íslands.

Gylfi var meðal frummælenda á fundi Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins í New York í gær, ásamt Mark Flanagan frá AGS, Lee Buchheit, aðalsamningamanni Íslands í Icesaave-viðræðunum, Árna Magnússyni frá Íslandsbanka og Ásgeiri Margeirssyni frá Magma Energy.
Á þeim fundi var staða efnahagsmála á Íslandi kynnt, staðan í viðræðunum um Icesave, og Flanagan kynnti efnahagsáætlun Íslands í samstarfi við AGS, sem og efnahagshorfur hér á landi. Þeir Árni og Ásgeir kynntu möguleika í orkumálum á Íslandi.


„Ýmsir töldu það hafa mjög slæm áhrif ef lánshæfi Íslands yrði lækkað enn frekar. Þá yrði erfitt fyrir fjárfesta að rökstyðja að hætta miklu fé inn í land sem væri ekki með lánshæfiseinkunn í fjárfestingarflokki. Við verðskuldum hærri lánshæfiseinkunn en því er ekki að leyna að áhyggjur af því að áætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins væri á ís hefur veikt lánshæfismatið. Vonandi verða þessar síðustu fréttir til að snúa þeirri þróun við. Það gæti haft bein áhrif á lánshæfismat fyrirtækja og mat fjárfesta á Íslandi og þar með liðkað fyrir fjárfestingum,“ sagði Gylfi við Morgunblaðið.

Spurt um rannsóknarskýrsluna 


Gylfi sagði viðmælendur sína í New York og Washington hafa verið vel að sér í málefnum Íslands, einhverjir hefðu spurt út í komandi rannsóknarskýrslu Alþingis en innan AGS skipti sú skýrsla ekki formlega séð máli í umræðunni þar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka