Hætt að dreifa alaskalúpínu

Lúpína og skógarkerfill í hlíðum Esju.
Lúpína og skógarkerfill í hlíðum Esju.

Hætta á dreifingu alaskalúpínu í landinu nema á skilgreindum landgræðslu- og ræktunarsvæðum og í ár þarf að hefja starf við að uppræta alaskalúpínu og skógarkerfil á svæðum ofan 400 metra hæðar, í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum.

Þetta eru meðal tillagna sem Landgræðsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands leggja fram í skýrslu sem stofnanirnar hafa skilað til  umhverfisráðherra. Tillögurnar miða að því að takmarka tjón af völdum alaskalúpínu og skógarkerfils í íslenskri náttúru en jafnframt að nýta kosti lúpínu við landgræðslu á rýrum svæðum.

Alaskalúpína og skógarkerfill eru fyrstu dæmin um ágengar framandi plöntutegundir sem breiðast út hér á landi og ógna líffræðilegri fjölbreytni. Stofnanirnar mátu útbreiðslu plantnanna og komust að því að alaskalúpínan er orðin mjög útbreidd. Hún finnst víða á láglendi, meðal annars þar sem land er friðað, einkum þó við þéttbýli og á skógræktar- og landgræðslusvæðum. Þá finnst lúpína á allmörgum stöðum á hálendinu.

Hér á landi hafa verið litlar hömlur á innflutningi og notkun framandi tegunda eins og alaskalúpínu og skógarkerfli. Einnig hefur verið lítið um aðgerðir til að hefta útbreiðslu þeirra, með nokkrum undantekningum þó, svo sem í Skaftafelli, Hrísey og Stykkishólmi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert