Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hefur byggt upp 82 m hátt fjall og hraunið þekur ríflega 1,3 km2 svæði og er þykkt þess víðast 10-20 metrar að því er fram kemur á vefslóðinni jardvis.hi.is.
Þann 7. apríl sl. þakti hraunið um 1,3 km2 og er þykkt þess víðast 10-20 metrar. Þykkast er það næst gígnum að austan eða um 30 metrar. Rúmmál gosefna var orðið 22-24 milljón rúmmetrar þann 7. apríl. Hraunrennsli hefur því að meðaltali verið 15 m3/s sem samsvarar 30-40 tonnum á sekúndu.
Til að setja gosið í samhengi má nefna að heildarmagnið er nú orðið svipað og í Grímsvatnagosinu 2004, 15-20% af því sem kom upp í Heklugosinu 2000 og tæplega tíundi partur af gosefnum í Vestmannaeyjagosinu 1973.
Gosið á Fimmvörðuhálsi hófst á flata milli tveggja hæða. Norðan gíganna er Brattafönn með hæsta hnjúk í rúmlega 1.040 m hæð. Sunnan gíganna er önnur hæð í um 1.083 m hæð. Hæsti hluti fjallsins sem hefur myndast í gosinu er hærri en Brattafönn en lægri en hnjúkurinn sunnan við gosstöðina. Er hæð gosstöðvanna var mæld hinn 7. apríl kom í ljós að fjallið, sem er í þeim hluta sem ekki gýs í lengur, rís nú í 1067 m hæð yfir sjávarmáli. Upphafleg hæð á þessum stað var hins vegar 985 m og hefur gosið því byggt upp um 82 m hátt fjall.
Til hliðar er svo gígur á nýju gossprungunni. Þar var mikil kvikustrókavirkni er mælingin fór fram. Hæsti hluti gígbarmsins reyndist á þeim tímapunkti vera 1.032 m hár. Hann hafði byggst upp um 47 m, meira en helming af hæð meginfjallsins.