„Ingibjörg Sólrún of svartsýn“

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kveðst ekki vera jafn svartsýn og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum formaður Samfylkingarinnar, sem segir að það væri jafnvel betra að fresta yfirstandandi viðræðum við Evrópusambandið en að halda þeim áfram í óvissu um hvert sé stefnt.

„Ég er ekki eins svartsýn eins og Ingibjörg Sólrún í því efni,“ sagði Jóhanna að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. Hún segir ljóst að ESB-stuðningur hér á landi hafi minnkað, og því sé m.a. um að kenna að menn séu að blanda saman óskyldum hlutum eins og Icesave-málinu og efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Ég hef trú á því eftir því sem þetta mál vindur fram og við getum kynnt það betur, sem við höfum því miður ekki haft nægan tíma í, þá muni vaxa stuðningu við það. Svo fer þetta auðvitað allt eftir samningsniðurstöðunni sem við fáum í samningsviðræðum okkar við ESB. Mér finnst Ingibjörg Sólrún of svartsýn í þessu efni,“ segir Jóhanna.

Aðspurð segir Jóhanna að Ingibjörgu sé frjálst að tala um þetta mál eins og hver annar. 

Því verður ekki frestað sem er ekki hafið

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist aðspurður ekki vilja blanda sig inn í um málefni Samfylkingarinnar hvað þetta tiltekna mál varðar.

„En það er ekki hægt að fresta því sem er ekki hafið. Það er rétt að minna á að viðræður eru ekki hafnar. Það er kannski að vænta í júní hvort Evrópusambandið taki ákvörðun um það hvort aðildarviðræður yfirleitt hefjast,“ segir Steingrímur hins vegar. Það sé síðan í höndum Alþingis að taka ákvörðun um næstu skref.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert