Einar Bárðarson, útvarpsstjóri Kanans, hefur kært forsvarsmenn Lýðvarpsins, þá Ástþór Magnússon og Jón Pétur Líndal, fyrir ólöglega eignaupptöku, en þeir fjarlægðu í gær útvarpssendi Kanans í Bláfjöllum, sem settur var upp fyrir 2 vikum.
Póst- og fjarskipastofnun úthlutaði nýlega Kananum útvarpstíðninni 100,5 en Lýðvarpið sendi áður út á þeirri tíðni. „Við urðum varir við það upp úr klukkan 14 í dag að útsendingar okkur voru rofnar og eftir einhverja eftirgrennslan komumst við að því að það hefðu verið einhverjar mannaferðir í Bláfjöllum og smám saman kom í ljós hverjir það höfðu verið," segir Einar. „Þá grunaði mig að í versta falli hefði þessu einfaldlega verið kippt úr sambandi í einhverri reiði. Þannig að við lögðum á okkur ferð þarna í kolbrjáluðu veðri seinni partinn í dag til að komast að því hvað hefði gerst og sáum þá að sendirinn okkar hafði verið numinn á brott."
Einar segir að Kaninn hafi öll tilskilin leyfi til útsendingarinnar, bæði frá Póst- og fjarskiptastofnun sem og eigenda aðstöðunnar í Bláfjöllum. „Fulltrúar Lýðvarpsins höfðu á engan hátt fyrir því að setja sig í samband við okkur, sem hefði getað sparað bæði fjallgöngu og gríðarlegt tjón," segir Einar sem óttast að búnaðurinn sé skemmdur.
Jón Pétur Líndal segir hinsvegar að samningur Lýðvarpsins um tíðnina 100,5 gildi til 15. janúar 2012. Hann heldur því fram að Kaninn hafi verið að nýta búnað og lagnir Lýðvarpsins í Bláfjöllum. „Þarna var vaðið inn og klippt á kapla á okkar búnaði og verið að stelast í okkar aðstöðu. Við erum engin góðgerðastofnun fyrir einhverja stráka sem vilja vera með útvarp og við viljum ekki hafa annarra manna dót innan um okkar búnað á okkar ábyrgð." Jón Pétur segist hafa afhent lögreglu búnaðinn.
Hann segir að ef Einar telji Kanann vera með leyfi fyrir sínum útsendinum sé það á einhverjum misskilningi byggt því Lýðvarpið sé hvergi nærri hætt. „Póst og fjarskipastofnun var búin að biðja okkur um að færa búnaðinn sem við erum með, þannig að við höfum ekkert verið með þetta í gangi í svolítinn tíma frá því um áramót, en það er ekki vegna þess að við séum hættir," segir Jón Pétur. „Við eigum okkar prívat mastur og aðstöðu, við erum að vísu í húsnæði sem aðrir eiga en erum með samning um það."
Einar segist vonast til þess að búnaðinum verði skilað og unnt verði að leysa úr málinu á friðsamlegum nótum, þá muni hann íhuga að fella niður kæruna, en á meðan málið sé óleyst verði mikið tjón fyrir Kanann.
„Landfræðilega höfum við misst úr 70% af útsendingarsvæðinu okkar, en við höfum kannski misst svona 30% af hlustendahópnum því við erum enn með virkna sendi á höfuðborgarsvæðinu á tíðninni FM 91,9. En við stöndum í miðri kynningarherferð fyrir þessa nýju tíðni 100,5 þannig að þetta hefði ekki getað gerst á verri tíma."