„Ég er að sjálfsögðu hæstánægður með þetta, loksins ber stritið einhvern árangur. Við höfum eytt í þetta gríðarlegum tíma, orku og ferðalögum að tryggja að þetta gengi í gegn. Núna erum við að uppskera í samræmi við það,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um samkomulagið sem náðst hefur um að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands verði tekin fyrir í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS, 16. apríl nk.
Steingrímur segir það segja sína sögu um hug AGS og starfsmanna sjóðsins að setja Ísland á dagskrá í stjórninni með óvenju stuttum fyrirvara, sem þýði að menn ætli að beita sér fyrir flýtimeðferð í málinu.
„Ég tel það nokkuð ljóst, að þetta hefði ekki verið sett svona inn á dagskrána nema vegna þess að það er bærilega vel tryggt að þetta fari snurðulaust í gegn. Það geta engar málefnalegar ástæður staðið í vegi fyrir því að endurskoðunin verði samþykkt. Ég er mjög bjartsýnn á það," segir Steingrímur.
„Þetta eru mjög góð tíðindi og mun breyta miklu fyrir okkur að kyrrstaðan sé rofin að þessu leyti. Það gerir okkur hitt bærilegra, hvernig sem verður með Icesave-málið. Það er mun betri staða að þetta sé ekki frosið líka. Þetta eru einnig mjög góð skilaboð út ávið og til marks um að við séum komin aftur á sporið með þennan hluta málsins," segir Steingrímur ennfremur og telur að samkomulagið muni m.a. hafa áhrif á lánshæfismat Íslands, treysta stöðuna fyrir næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans, og fleiri atriði.
Ætti að opnast aðgangur að öðrum lánum
Eftir aðra endurskoðunin munu íslensk stjórnvöld hafa aðgang að þriðja hluta láns AGS upp á 20 milljarða króna. Hvort og hvernig það lán verður nýtt segir Steingrímur að eigi eftir að meta í fjármálaráðuneytinu í samráði við Seðlabankann. Opnast geti aðgangur að öðrum lánum, eins og hjá Póllandi og Norðurlöndunum.
„Ég geri mér von um að þetta verði endurskoðun með fullri fjármögnun. Verði þetta gert í sæmilegu samkomulagi gegnum stjórn sjóðsins sé ég ekki hvað Norðurlöndin ættu að bera fyrir sig, að gera ekki aðgengilegan annan lánahlutann frá þeim. Ég er bjartsýnn á að málið nái fram að ganga og á frekar von á að þetta verði afgreitt samhljóða í stjórn sjóðsins. Það yrði pínleg staða fyrir einhvern minnihluta í stjórninni að ætla að finna einhverjar ástæður til að standa gegn endurskoðuninni. Þær aðstæður eru að mínu mati ekki til staðar. Við höfum uppfyllt alla skilmála áætlunarinnar og geri mér vonir um að við munum frá frekar jákvæða umfjöllun hjá sjóðnum," segir Steingrímur J. Sigfússon í samtali við mbl.is.