Mikill áhugi virðist hérlendis á þátttöku í Evrópuárinu 2010 – gegn fátækt og félagslegri einangrun – og hafa yfir 80 umsóknir borist um styrki vegna verkefnisins.
Styrkbeiðnir hafa borist frá félagasamtökum, stofnunum og sveitarfélögum en umsóknarfresturinn rann út 2. apríl. Stefnt að því að úthlutun fari fram í byrjun næsta mánaðar á þeim 35 milljónum króna sem stýrihópur Evrópuársins hér á landi hefur til ráðstöfunar, samkvæmt upplýsingum frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu.
Berjumst gegn fátækt er yfirskrift Evrópuársins sem Ísland tekur þátt í, ásamt Evrópusambandslöndunum 27 og Noregi, og hefur ráðuneytið umsjón með átakinu af Íslands hálfu ásamt stýrihópi skipuðum fulltrúum sveitarfélaga, félagasamtaka, aðila vinnumarkaðarins og hjálparstofnana.
Alls er varið 42 milljónum króna til átaksins hérlendis og verður 35 milljónum af þeirri upphæð varið til að styrkja verkefni og rannsóknir sem hafa að markmiði að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun. „Sérstök áhersla var lögð á verkefni sem auka fjölbreytni úrræða og námskeið sem bæta aðstæður tekjulágra hópa og fjölskyldna, atvinnulausra og fólks með skerta starfsgetu og á verkefni sem vinna gegn fordómum sem einstaklingur upplifir vegna aðstæðna sinna og verkefni sem ýta undir félagslega virkni fólks sem hætt er við einangrun vegna langtímaatvinnuleysis eða bágra aðstæðna,“ að því er segir í yfirlýsingunni.
Dómnefnd, skipuð fulltrúum frá ráðuneytum og Ráðgjafastofu heimilanna vinnur nú úr innsendum umsóknum og er stefnt að því að tilkynna um úthlutun verkefnastyrkja vegna Evrópuátaksins í byrjun maí 2010.
Verkefni og rannsóknir sem fá úthlutun verða að jafnaði styrkt um að hámarki 80% af heildarkostnaði en mótframlagið getur hvort sem er verið í formi vinnuframlags eða fjármuna.