„Ég átta mig ekki á að ég hafi verið með einhver ummæli sem hafi verið nokkuð stuðandi í hans garð. Það sem ég vil segja um þetta er að ég er sammála honum um að enginn er sekur fyrr en mál hafa verið rannsökuð og sök sönnuð. Við erum ekki ósammála um það," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson sendi Steingrími bréf í morgun, þar sem hann bað ráðherrann um að gæta orða sinna í sambandi við væntanleg málaferli gegn sér. Sú hlið sem birtist í stefnu skilanefndar Glitnis á hendur sér væri aðeins ein hlið á málinu, en þær væru fleiri.
„Ég hef sagt tvennt um þetta. Í gær áréttaði ég þá fortakslausu skyldu sem hvílir á skilanefndum að senda þessi mál til saksóknara ef efni eru til. Það beindist ekki að einum eða neinum sérstaklega, heldur var bara almennt," segir Steingrímur.
„Síðan mun ég hafa sagt í viðtali, og ég bakka ekki með það, að það sem má lesa út úr þessum tölvupóstum lítur ekki vel út, hvað varðar samskipti stórra eigenda og bankans. En vissulega gildir það að ekki á að dæma einn eða neinn út frá því fyrr en það hefur verið rannsakað. Nú skilst mér að það verði gert, svo málið fer þá bara sína leið."
Steingrímur segist engan áhuga hafa á að bera menn sökum fyrirfram og umfram það sem efni standi til. Það hafi hann heldur ekki gert. „En ég hlýt að mega segja eitthvað, eins og hver annar, um þá tilfinningu sem maður fær af því að sjá þessi gögn."
Steingrímur kveðst lengi hafa verið á varðbergi gagnvart því að eignarhald á mikilvægum fjármálastofnunum væri ekki of samþjappað og byði ekki hættunni heim. Hann hafi árum saman talað fyrir því að það væri mikilvægt að ef bankar væru í einkaeigu þá væri eignarhaldið dreift og kirfilega um það búið. „Ég hef nú bara verið að vísa í mín almennu viðhorf í því."
Hann hafi verið tiltölulega hófstilltur í viðbrögðum sínum og telji sig ekki þurfa að taka neitt til baka í þeim efnum. „Ég sagði að mig undraði að sjá það sem glitti í, í þessum póstum, en það getur bara hver lesið fyrir sig og best að hver og einn geri það og myndi sér skoðun á því," segir Steingrímur.