Biður Steingrím að gæta orða sinna

Jón Ásgeir Jóhannesson segist lengi hafa orðið að búa við …
Jón Ásgeir Jóhannesson segist lengi hafa orðið að búa við það, að ráðamenn landsins gefi sér niðurstöðu í málum sem að honum snúa. Ómar Óskarsson

Jón Ásgeir Jóhannesson biðlar til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra að sitja á sér þegar alvarlega ávirðingar eru bornar á fólk. Þetta kemur fram í grein eftir Jón Ásgeir sem birt er á Pressunni í dag.

Í greininni segir hann öll mál eiga sér tvær hliðar og að sú hlið sem fram komi í stefnu sé bara ein hlið málsins. Vísar Jón Ásgeir þar til ummæla fjármálaráðherra og Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á blaðamannafundi í gær. En þar lýstu ráðherrarnir undrun á þeim upplýsingum sem koma fram í stefnu skilanefndar Glitnis á hendur starfsmönnum og eigendum bankans. 

Jón Ásgeir segist lengi hafa þurft að búa við það að ráðamenn gefi sér fyrirfram niðurstöðu í hans málum:

„Ég hef lengi orðið að búa við það, að ráðamenn landsins hafa gefið sér niðurstöðu í málum sem að mér snúa. Í átta ár virtust stjórnarherrar landsins telja að harður dómur væri það eina, sem komið gæti til greina í málarekstri ákæruvaldsins gegn mér,“ segir í greininni. Þá biður hann fjármálaráðherra vinsamlega að gæta að orðum sínum:

„Ég bið þig þess vegna allra vinsamlegast að leyfa þeim yfirvöldum, sem við höfum komið okkur saman um að til þess séu bær, að fjalla um hugsanleg dómsmál sem að mér snúa áður en þú kynnir þína einkaniðurstöðu fyrir þjóðinni.  Ég þykist vita, að þinn dómur, sem verður til fyrir framan myndavélar sjónvarpsstöðvanna á örfáum augnablikum, hefur meiri áhrif en velviljaður stjórnmálamaður raunverulega vill.“  

 http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/jon-asgeir-bidlar-til-steingrims-j.-bidum-eftir-nidurstodu-logbaerra-domstola

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert