„Menn gefast ekki upp í miðri á þótt það kunni að vera stormasamt og vatnsgangurinn hækki,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þess efnis að betra sé að fresta aðildarviðræðum við Evrópusambandið en að halda áfram í óvissu um að hverju sé stefnt.
„Ég er mjög hissa á þessum ummælum Ingibjargar,“ sagði Össur einnig.
Í viðtali við Clemens Bomsdorf, blaðamann þýskrar útgáfu Financial Times, segir Ingibjörg engan berjast fyrir inngöngu Íslands í sambandið um þessar mundir. Hún segir nauðsynlegt að einhver geri það eigi aðildarsamningur að hljóta samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ingibjörg er þarna að skjóta ansi fast að Össuri,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent í stjórnmálafræði. „Hann er sá sem heldur utan um málið fyrir ríkisstjórnina og sótti um aðild fyrir Íslands hönd.“Sjá nánar um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.