Páll Magnússon útvarpsstjóri segir ekki ástæðu til að endurskoða sérstaklega gjafir til keppenda í skemmtiþáttum Ríkissjónvarpsins, í tilefni af uppákomunni í Útsvari, spurningaþætti sveitarfélaganna í gær.
Þar harðneitaði Vilhjálmur Bjarnason lektor í viðskiptafræði og liðsmaður Garðbæinga að veita gjafabréfi frá Iceland Express viðtöku í lok þáttar, en flugfélagið er í eigu Pálma Haraldssonar, kennds við Fons, sem fréttir um meint fjármálamisferli hafa snúist um að undanförnu.
„Ég skil út af fyrir sig Vilhjálm alveg, og þau sjónarmið sem hann hefur fært fram fyrir sinni afstöðu. Það eru örugglega alveg gild sjónarmið, út frá hans sjónarhóli," segir Páll. Hins vegar telji hann að gjöfin sjálf hafi tæpast getað talist óviðeigandi.
„Það væri nú til að æra óstöðugan ef Ríkissjónvarpið færi að flokka fyrirtæki í góð og vond eftir hreinleika eigenda þeirra. Þá yrði kannski ekki um auðugan garð að gresja," segir Páll og lítur ekki á málið sem mjög alvarlega uppákomu.