Ekkert ferðaveður er á gosslóðir í dag og varar lögreglan á Hvolsvelli fólk við að gera sér ferð á svæðið við þessar aðstæður. Verulega vont veður var á Fimmvörðuhálsi í gær sem hindraði alla umferð þangað og er spáin enn verri fyrir daginn í dag.
„Það er brjálað veður á jöklinum og á Fimmvörðuhálsi,“ sagði vakthafandi lögreglumaður á Hvolsvelli og ítrekar að ekkert ferðaveður sé í dag á gosslóðir enda útsýni ekkert.
Vegna hlýinda og rigningar undanfarið er nú mikill krapi á jöklinum sem gerir ferðina þar yfir hættulega. Bílar björgunarsveita lentu í vandræðum á svæðinu, sem og þeir sem fóru á Fimmvörðuhálsinn í gær. Þau ferðaþjónustufyrirtæki sem lögreglan á Hvolsvelli hefur rætt við segja aðstæður á jöklinum nú mjög slæmar
Miklir vatnavextir hafa þá verið í ám í Þórsmörk. Ár sem fyrir viku voru lítið annað en sprænur ullu lögreglu og björgunarsveitum þannig töluverðum vandræðum í gær. Þá er Skógarheiðin, sem lokuð hefur verið umferð annarra en lögreglu og björgunarsveita, orðin ófær.
Fundað verður með almannavörnum í dag þar sem farið verður yfir stöðuna.