Fyrirtækið Remake Electric hlaut í dag Gulleggið, frumkvöðlaverðlaun Innovit, sem afhent var í þriðja sinn. Fyrirtækið hlaut verðlaunin fyrir verkefni sitt, Rafskynjarann.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Innovit lýsir Rafskynjaranum sem nýrri tegund af skynjara sem skynji ofaálag í rafkerfum húsa. Skynjarinn er búinn ljósum svo notandinn sér auðveldlega, eftir því hvort grænt, gult eða rautt ljós logar, ef álag er að verða of mikið.
„Þetta getur sparað mikinn kostnað í húsum og er líka mikið öryggistæki gegn eldhættum," segir Andri Heiðar. Skynjarinn gerir notendum kleift að skilja, stjórna og hagræða rafmagnsnotkun sinni. Rafskynjarinn getur einnig sent upplýsingar með þráðlausum boðum og tengst tölvukerfum, hússtjórnunarkerfum og brunavarnarkerfum.
Andri Heiðar segir að gæði verkefnanna sem taki þátt í Gullegginu aukist ár frá ári og mjög öflugur hópur hafi tekið þátt í úrslitum að þessu sinni, allt ungt fólk sem hefur stofnað ný fyrirtæki eða er í þann mund að stofna fyrirtæki um hugmyndir sínar.
Hilmir Ingi Jónsson, forsprakki Remake Electric, segir framtíðina bjarta. Fyrirtækið sé með fleiri vörur í vinnslu og hafi fengið einkaleyfissamþykki fyrir aðra vöru, sem vakið hafi mikla athygli. Það sé einnig rafmagnsöryggisvara, þó ekki sé það öryggi, eins og Rafskynjarinn.
„Við viljum breyta skilningi og þekkingu fólks á rafmagnsnotkun sinni, gefa einfaldar upplýsingar sem hjálpa fyrirtækjum að hagræða rekstri sínum með rafmagn og auka öryggi sitt út frá brunahættu og skemmdum í raftækjum," segir Hilmir. Í dag sé lítið upplýsingaflæði um þá hluti til almennings.
„Við stefnum á heimsmarkað með framleiðslusamningum við heimsþekktan framleiðsluaðila. Við erum ekki framleiðendur, við erum nýsköpunarfyrirtæki og leigjum í raun bara út framleiðsluréttinn á vörunni."