Um miðjan mánuðinn eiga nagladekkin að vera horfin af götunum, enda ótækt að þyrla upp svifryki með hverri bílferð, algerlega að óþörfu. Nú fer því í hönd dágóð vinnutörn á dekkjaverkstæðum víða um land.
Þetta er líka kjörinn tímapunktur til að endurnýja umganginn og keyra út í ferðasumarið með gripið í lagi. Í lok hvers dags hefur safnast upp dágóður stafli af slitnum og ónýtum dekkjum og þegar ljósmyndari Morgunblaðsins leit inn á Hjólbarðaverkstæði Sigurjóns voru starfsmennirnir í óðaönn að senda þau til förgunar.