Fjallað um íslenska fátækt

Sverrir Vilhelmsson

„Ég segi börnunum mínum ekki hvar ég fæ matinn. Ég skammast mín of mikið,” er haft eftir íslenskri konu í ástralska blaðinu Sydney Morning Herald. Konan hefur þurft að leita til hjálparstofnana til að fá mat í hverri viku í heilt ár samkvæmt fréttinni, en hún er þriggja barna móðir.

Fjármálakreppan sem felldi efnahag Íslands árið 2008 gerði þúsundir fjölskyldna, sem áður voru vel á sig komnar, fátækar og leiddi til þess að fólk þurfti að leita til hjálparstofnana til að lifa af, segir í fréttinni.

Í viku hverri sæki um 550 fjölskyldur til Fjölskylduhjálpar Íslands, um þrisvar sinnum fleiri en fyrir kreppuna. Talað er við annan íslending, Rút Jónsson, verkfræðing á sjötugsaldri sem sestur er í helgan stein, sem starfar sem sjálfboðaliði við að útdeila matnum.

„Ég hef tíma aflögu til að hjálpa öðrum og það er það besta sem ég get gert,” segir hann við AFP, þar sem hann var í óðaönn að pakka mat í poka.

Í litlu og nánu samfélagi eins og Íslandi, segir í fréttinni, þar sem aðeins búi um 317.000 manns sé erfitt að þiggja ölmusu og af þeim tugum manna sem bíði fyrir utan Fjölskylduhjálp hafi fyrrnefnd kona verið sú eina sem vildi tala við blaðamanninn.

„Það var mjög erfitt fyrir mig að koma hérna fyrst um sinn. En núna reyni ég að hugsa ekki svo mikið um það,” segir hún. Hún missti vinnuna sína í apóteki síðasta sumar.

Aðstæðurnar nú eru í harkalegum samanburði við yfirgnæfandi ríkidæmið sem virtist allsráðandi á eyjunni fyrir um tveimur árum síðan, þegar ofvirkur bankageiri sáldraði peningum yfir hagkerfið, sem áður hafði byggst aðallega á fiskveiðum. Á þeim tíma voru helstu áhyggjur fólks þær hver ætti stærsta jeppann eða hver ætti glæsilegustu íbúðina.

Í dag séu merki um fátækt hins vegar að margfaldast á Íslandi, þrátt fyrir að það sé þróað velferðarríki. Millistéttin verði í æ meiri mæli fyrir barðinu á atvinnumissi og geti ekki borgað af lánum sínum.

„Fjölskyldurnar 550, sem við tökum á móti hér, telja um 2.700 manns og sú tala heldur áfram að hækka,” segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, stjórnandi Fjölskylduhjálpar, við AFP.

Konan sem rætt var við í upphafi fréttarinnar er sögð vera að borga af tveimur bílalánum, sem hún hafi tekið í erlendri mynt eftir slæma ráðgjöf frá bankanum hennar. Hún hafi samið um ársfrystingu á lánum við bankann sinn, eftir að hafa verið hótað útburði af heimili sínu í Vogum á Vatnsleysuströnd. „Mér líður illa og ég hef miklar áhyggjur,” segir hún ,,Ég hef hugsað um að flýja land, en ákvað að vera hér því vinir mínir hafa stigið fram og veitt tryggingar fyrir lánunum mínum,” bætir hún við leið í bragði.

Til að komast hjá því að þiggja ölmusu, segir í fréttinni, kjósa margir íslendingar að pakka niður og reyna fyrir sér í útlöndum. Opinberar tölur sýna að mesti brottflutningur fólks í heila öld á sér nú stað.

„Ég sé bara enga framtíð hér. Það verður engin framtíð í þessu landi næstu 20 árin,” segir Anna Margrét Björnsdóttir, 46 ára gömul einstæð móðir sem er að undirbúa flutning til Noregs í júní, ef henni tekst ekki að halda húseign sinni.

Fyrir þá sem eru eftir, er æ erfiðara að ná endum saman. Á meðan aðeins lítill minnihluti fer og fær mat gefins, viðurkenna sumir foreldrar að svelta sjálfa sig til þess að geta gefið börnunum sínum að borða. „Ég verð að viðurkenna að með hækkandi matarverðinu er það orðið þannig að synir mínir tveir borða mest af því sem ég og maðurinn minn komum með heim,” er haft eftir konu, sem blaðamaður mun hafa hitt á kaffihúsi í Reykjavík. „Við fáum það sem er eftir þegar þeir eru búnir.”

Frétt blaðsins má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka