Föst á Fimmvörðuhálsi

Eldgos í Fimmvörðuhálsi
Eldgos í Fimmvörðuhálsi Ernir Eyjólfsson

Veður er kolvitlaust á Fimmvörðuhálsi í dag og alls ekkert ferðaveður, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Í morgun hafði fólk samband við lögregluna í gegnum neyðarrás og var þá í sjálfheldu í Baldvinsskála uppi á hálsinum. Fólkið, sem er erlent göngufólk, er með vistir fyrir daginn og hefur það ágætt í skálanum, en treystir sér alls ekki til að halda niður til byggða gangandi, enda algjört mannskaðaveður úti fyrir.

Talið er að fólkið hafi verið í tvær nætur uppi á hálsinum því björgunarsveitir sem hafa eftirlit við Skóga urðu ekki varar við að neinn leggði upp í gær.

Björgunarsveit verður gerð út af örkinni til að ná í fólkið síðar í dag. Færðin upp á Mýrdalsjökul er afar slæm og sömuleiðis færðin á jeppaslóðanum upp sjálfan Fimmvörðuháls. Að sögn lögreglu þurftu nokkrir frá að hverfa sem reyndu að komast að eldgosinu um Mýrdalsjökul í gær, vegna bleytu, krapa og slæmrar færðar.

Lögregla mælir því alls ekki með neinum ferðum upp að eldgosinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert