Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra segir boltann núna hjá bílalánafyrirtækjunum í þeim viðræðum sem hafa átt sér stað um afskriftir erlendra bílalána og breytingar á þeim yfir í íslenskar krónur. Náist ekki samkomulag muni stjórnvöld leggja fram lagafrumvarp. Árni Páll sagði þetta í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Viðræður hafa staðið yfir við fulltrúa bílalánafyrirtækjanna síðan fyrir páska, en andstaða hefur verið meðal sumra þeirra við að grípa til stórfelldra afskrifta. Staða Lýsingar hefur þótt einna verst og stærsti lánveitandi þess, Deutsche Bank, hefur hótað lögsókn á hendur ríkinu verði bílalánin afskrifuð að hluta.