„Þetta er í fyrsta sinn sem kosið er til sveitarstjórna eftir hrun og að því leyti er þetta uppgjör við frjálshyggju," segir Sóley Tómasdóttir leiðtogi VG í Reykjavík. Velferð, lýðræði, umhverfismál og atvinnu eru áherslumál Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í komandi sveitarstjórnakosningum.
Frambjóðendur flokksins funduðu um helgina og kynntu áðurnefnd lykilmál sín á blaðamannafundi nú síðdegis. Ólafur Þór Gunnarsson oddviti Vinstri grænna í Kópavogi segir að þrátt fyrir þennan grunn hvað málefnin varðar, muni áherslur taka þó mið af aðstæðum í hverri byggð um sig. Ákveðin mál hljóti þó að verða sístæð hvar sem er, svo sem velferð í nærsamfélaginu.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir er oddviti VG í Hafnarfirði. Hún segir sjálfbæra þróun nauðsyn. Mikið hefði verið byggt Hafnarfirði svo sem á Norðurbakka og í Vallahverfi, en ekki reynst þörf fyrir slíkt. Mikill fjöldi íbúða stæði auður og einnig hefðu verið lagðar götur án þess að nokkurt hús hefði þar risið.