Björgunarmenn á leið til baka

Mennirnir komu til Íslands til að berja eldgosið augum.
Mennirnir komu til Íslands til að berja eldgosið augum. Rax / Ragnar Axelsson

Björgunarsveitarmenn eru nú á leið til byggða með erlendu ferðamennina tvo sem veðurtepptir voru í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi. Heilsast mönnunum tveimur vel og eru þeir þakklátir björgunarsveitunum, sem þeir voru í sambandi við allan tímann.

Hægt gekk að komast upp að skálanum og tók það björgunarveitirnar fjóra tíma að komast á staðinn frá Skógum.

„Við vorum búnir að vera þarna í þrjá daga,“ segir Tomas, annar hinna þýsku ferðalanga sem hafði gert sér ferð að Fimmvörðuhálsi ásamt Tobiasi  félaga sínum til að berja eldfjallið augum. „Við erum þurrir og hlýir og vorum með nógan mat og sakaði því ekki,“ segir hann og kveður þá hafa verið vel búna og vita á hverju þeir gætu átt von. Enda eru þeir vanir útivistarmenn og hafa heimsótt Ísland í þrígang áður. Auk þess þekki þeir til í Baldvinsskála.

Eldgosið náðu þeir hins vegar ekki að sjá. „Það var of áhættusamt,“ segir hann og kveður þá þó aldrei hafa verið óttaslegna. „Við höfum farið töluvert út úr skálanum og vissum hvað við vorum að gera. Eini vandinn var sá að við vorum orðnir tímalausir og erum þegar búnir að missa af fluginu okkar.“

Björgunarsveitirnar hafa þeir verið í sambandi við í allan dag á meðan þeir biðu aðstoðar. „Við erum mjög þakklátir,“ segir hann að lokum. 

Ferð björgunarmanna niður af hálsinum gekk hægt nú síðdegis. En að sögn Ármanns Inga Sigurðarsonar, formanns Björgunarfélagsins Árborgar, gengur nú á með hryðjum og var veður farið að versna á nýjan leik. „Við eigum eftir að komast yfir Skógána og það gæti orðið vandamál, því það er mikill klaki í henni.“ Björgunarmenn hafi þannig lagt af stað upp að skálanum á þremur bílum en bara komið einum bíl yfir ána. 

Ekkert ferðaveður sé heldur á Fimmvörðuhálsi eða jöklinum.  „Við mættum tveimur hópum af göngufólki við Skógá á leiðinni upp, en snérum þeim báðum við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert