Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá dómi skaðabótakröfu þýska bankans DekaBank Deutsche Girozentrale á hendur íslenska ríkinu en þýski bankinn krafðist 338 milljóna evra bóta, jafnvirði 58 milljarða króna, vegna neyðarlaganna sem sett voru í október 2008.
Taldi þýski bankinn, að ríkið bæri skaðabótaábyrgð vegna aðgerðarleysis í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008.
Þýski bankinn og Glitnir banki áttu í svokölluðum endurhverfum viðskiptum á árinu 2008 en samkvæmt samningum þar um samþykki Glitnir að selja stefnanda verðbréf og aðra fjármálagerninga gegn greiðslu DekaBank á kaupverði og á sama tíma samþykki DekaBank að selja verðbréfin á ákveðnum degi eða þegar þess væri krafist gegn greiðslu Glitnis á endurkaupverði til stefnanda.
Í þessum viðskiptum keypti DekaBank skuldabréf útgefin af Kaupþingi og Landsbankanum. Eftir að íslensku bankarnir féllu sagðist DekaBank hafa leitast við að eiga samvinnu við hinar skilanefnd gamla Glitnis og við stjórnvöld til þess að leita lausna á þeim erfiðu álitamálum sem risu eftir fall bankanna. Taldi þýski bankinn, að verulegur skortur hafi verið á upplýsingagjöf, gagnsæi og samstarfsvilja af hálfu íslenskra stjórnvalda og íslenska ríkið hafi ekki sýnt raunverulegan áhuga á því að ná sameiginlegri lausn með kröfuhöfum bankanna. Af þeim sökum hafi DekaBank séð sig knúinn til þess að höfða mál sem síðasta úrræði til þess að gæta hagsmuna sinna.
Héraðsdómur sagði hins vegar í niðurstöðu sinni, þegar hann féllst á frávísunarkröfu ríkisins, að málshöfðunin sé ótímabær og grundvöllur skaðabótakröfu komi ekki til álita fyrr en lokið sé uppgjöri á fjárkröfu DekaBank á hendur Glitni við slitameðferð bankans og fyrir liggi að þýski bankinn hafi orðið fyrir tjóni.