„Sá örskammi tími sem nefndarmenn ætla sér til lokafrágangs ritsmíðar sinnar, að fengnum andmælum tólf einstaklinga, gefur ekki sérstaklega góðar vonir um raunverulegt innihald þess andmælaréttar sem einstaklingar þó ómótmælanlega eiga,“ segir Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í svarbréfi til rannsóknarnefndar Alþingis.
Átti að afla nákvæmari upplýsinga um innlán bankanna
Í bréfinu til Davíðs er fjallað um lánveitingar Seðlabankans til fjármálafyrirtækja, gegn veði í skuldabréfum fyrirtækjanna. Nefndin segir það til athugunar hvort það hafi verið mistök og vanræksla af hálfu bankastjórnar að hafa ekki gripið til ráðstafana og takmarka það tjón sem varð vegna þessa.
Þá segir að nefndin hafi til athugunar hvort bankastjórn Seðlabankans hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi með því að afla ekki fyrr tölulegra upplýsinga um skiptingu innlána erlendra aðila milli útibúa bankanna erlendis og starfsstöðva þeirra á Íslandi.
Skorti yfirsýn á stöðu Glitnis
Einnig hafi nefndin tekið til athugunar hvort og þá hvernig bankastjórn Seðlabankans brást við söfnun bankanna á innlánum frá erlendum einstaklingum, og hvernig þau viðskiptu juku skuldbindingar Tryggingarsjóðs innistæðueigenda.
Rannsóknarnefndin telur ljóst að töluvert hafi skort á yfirsýn yfir stöðu Glitnis. Segir í bréfinu að til athugnar sé hvort það teljist falla undir mistök og vanrækslu að Seðlabankinn hafi ekki aflað sjálfur upplýsinga um stöðu Glitnis, og einnig að hafa ekki lagt mat á trúverðugleika þeirra aðgerða sem Seðlabankinn lagði til í málefnum Glitnis.
Sagði tvo nefndarmanna hafa verið vanhæfa
Í svarbréfi sínu segir Davíð að Sigríður Benediktsdóttir hljóti að vera vanhæf, enda lýsti hún áður en hún hóf nefndarstörf opinberlega þeirri skoðun sinna að orsakir falls bankanna hafi annars vegar verið græðgi og hins vegar sinnuleysi þeirra stofnana sem setja hafi átt reglur og tryggja fjármálalegan stöðugleika.
Einnig hljóti Tryggvi Gunnarsson að vera vanhæfur, þar sem tengdadóttir hans starfar - og starfaði fyrir hrun - sem lögfræðingur í Fjármálaeftirlitinu, þar sem hún hafi verið „lykilstarfsmaður og allt í öllu á mörgum sviðum.“
Samkvæmt svokallaðri lögmætisreglu hvorki á né má Seðlabankinn gera meira en lög bjóða, bendir Davíð á, en eftirlitsskylda með fjármálafyrirtækjum hafi hvílt afdráttarlaust á Fjármálaeftirlitinu, en ekki Seðlabankanum. Þá bendir hann á að samkvæmt lögum hafi Seðlabankinn ekki haft heimildir til að stöðva innlánasöfnun íslensku bankanna í útlöndum.
Þrengri veðlánareglur en evrópski seðlabankinn
Einnig segir Davíð að Seðlabanki Íslands hafi haft frumkvæði að fundi með forsvarmönnum hins breska seðlabanka, þar sem komið var á sérstökum tengiliðum á milli bankanna. Þá hafi breski seðlabankinn sent sérfræðing í bankakreppum til Íslands.
Davíð bendir á að Seðlabankinn beitti veðlánareglum sem voru sambærilegar reglum evrópska seðlabankans, að öðru leyti en því að hinar íslensku reglur voru þrengri. Hins vegar bendir hann á að aðrir seðlabankar voru einmitt að rýmka þessar reglur.
Varðandi yfirsýn yfir stöðu Glitnis, bendir Davíð á að slík upplýsingaöflun sé á valdi Fjármálaeftirlitsins. Loks segir Davíð alls ekki rétt að trúverðugleiki þeirra aðgerða, sem ráðist var í til að bjarga Glitni, hafi ekki verið ræddur. Þeim sem héldu um málið af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi einnig verið fulljóst að trúverðugleiki aðgerðarinnar skipti höfuðmáli - enda voru þeir margir hverjir menntaðir hagfræðingar og reyndir í efnahagsmálum.