Ábyrgðin ekki utanríkisráðherra

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

„…var það hlutverk fjármálaráðuneytis að annast fjármál ríkisins og meta þróun og horfur í efnahagsmálum. Þá fór viðskiptaráðuneyti með ábyrgð á málum er varða fjármálamarkað og gjaldeyri. Samkvæmt reglugerðinni var utanríkisráðuneytinu ekki falið að annast nein málefni á sviði fjármála eða bankamála sem tengjast því sem að ofan er talið.“


Ekki á hennar valdi að grípa fram fyrir hendur ráðuneyta
Þetta kom fram í svari Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra til rannsóknarnefndar Alþingis en nefndin taldi fram þrjú atriði sem gætu mögulega verið talin til mistaka eða vanrækslu í starfi hennar sem ráðherra. 

Í svarinu vísar Ingibjörg  til bankastjórnarsamþykktar frá nóvember 2006, um hlutverk Seðlabanka Íslands komi til lausafjárvanda sem feli í sér kerfisáhættu og samkomulags milli forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um samráð varðandi fjármálastöðugleika og viðbúnað frá því í febrúar sama ár. Í þessum gögnum komi skýrt fram hver verkaskipting hafi verið. Þá segir síðar í bréfinu. „Þá hafði ég hvorki á valdi mínu að grípa fram fyrir hendur þeirra ráðuneyta eða stofnana sem þessi mál heyrðu undir né átti ég aðgang að starfsfólki með sérþekkingu á þessu sviði eins og viðkomandi ráðherrar.“


Rannsóknarnefndin var þarna að vísa til fundar með Davíð Oddssyni, þáverandi Seðlabankastjóra, Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra og Árna M. Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra þann 7. febrúar 2008, þar sem fram hafi komið hve ástandið var orðið alvarlegt.  Í skýrslutöku Rannsóknarnefndarinn sagði Davíð Oddsson um viðbrögð þeirra ráðherra sem sátu fundinn: „„Ég get bara sagt það að þegar við komum út af þessum fundi þá sagði ég svona í minn hóp: Ef þetta hreyfir ekki við þessu fólki þá er ekkert sem gerir það. Og ég sagði, og ég heyrði það á umræðunum að þetta fólk er loksins búið að sjá ljósið. Svo fengum við engin viðbrögð.“

Segist ekki hafa brugðist sem oddviti Samfylkingarinnar
„Fyrst skal til tekið að oddvitum ríkisstjórnarflokka er ekki markað sérstakt hlutverk í lögum eða öðrum settum reglum. Ég verð því ekki sökuð um að hafa á einhvern hátt brugðist hlutverki mínu sem oddviti Samfylkingarinnar með vísan til reglna sem gilda um ábyrgð í slíku starfi.Í”“ segir Ingibjörg en í  bréfi nefndarinnar segir að hún hafi setið fundi, ekki aðeins sem ráðherra heldur einnig oddviti annars stjórnarflokksins.

Er þar gagnrýnt að Ingibjörg hafi ekki tekið það sem kom fram á fundinum fyrir á ríkisstjórnarfundi eða við ráðherra viðkomandi málefnis. Er einnig vísað til annarra funda um efnið í apríl, maí, og júlí sem hún hafi setið án þess að hún hafi talið ástæðu til að gera viðeigandi ráðstafanir í kjölfarið en nefndin kannaði hvort slíkt gæti talist til vanrækslu. Nefndin vísar til minnisblaðs Ingibjargar Sólrúnar eftir fund 1. apríl, þar sem komið hafi fram að 193 milljónir sterlingspunda hafi runnið út af Icesave reikingum.

Ingibjörg segir rangt að haldið hafi verið fram á fundinum að um áhlaup” hafi verið að ræða. „Það gat hins vegar aldrei verið á ábyrgð utanríkisráðuneytisins að skilgreina hvaða viðbrögð - til varnar eða sóknar - íslenska ríkið ætti að hafa uppi vegna aðsteðjandi vanda fjármálafyrirtækja í einkaeigu.“

Ekki hennar hlutverk að gera sjálfstæða rannsókn á bönkunum
Einnig vísar nefndin til ávarps Ingibjargar Sólrún á ráðstefnu á vegum utanríkisráðuneytisins þann 22. febrúar 2008, þar sem umfjöllunarefnið var „Umfjöllun um íslenska fjármálageirann - hlutverk utanríkisþjónustunnar“. 

Þá segir: „Í því gerðuð þér að umtalsefni orðsporsáhættu íslenska bankakerfisins. Í skýrslu yðar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis kom m.a. fram að rætt hefði verið um: „ [...] hvernig við gætum – ja, kannski stutt við íslenska bankakerfið með því að koma á framfæri upplýsingum sem við töldum góðar og réttar um bankakerfið, að það stæði tiltölulega traustum fótum, það hefði ekki tekið þátt í þessum „sub-prime lánum“, eiginfjárstaðan væri góð o.s.frv. Það var kannski þetta sem var verið að koma á framfæri við okkar fulltrúa erlendis.“  Ingibjörg Sólrún hafi auk þess lýst því yfir í innlendum sem erlendum fjölmiðlum að staðið yrði við bak bankanna af hálfu íslenska ríkisins.  Nefndin taldi því ástæðu til að kanna hvort Ingibjörg Sólrún hafi orðið sek um vanrækslu með því að gefa slíkar yfirlýsingar án þess að hafa mat á því hver geta ríkissjóðs væri til að styðja við fjármálafyrirtækin.

Um þetta segir Ingibjörg meðal annars: „Sem utanríkisráðherra hafði ég enga aðstöðu í krafti embættis til þess að láta gera sjálfstæða rannsókn á stöðu bankanna og getu ríkissjóðs til að standa við bakið á þeim. Í samræmi við langa og athugasemdalausa starfsvenju voru slíkar upplýsingar sóttar í fagráðuneyti.“

Segir gögnum hafa verið haldið frá sér
Auk þess að ekki hafi verið í verkhring utanríkisráðherra að bregðast við segir Ingibjörg að gögnum hafi verið haldið frá sér.

„Hitt liggur nú fyrir að mér voru hvergi nærri kynnt öll gögn sem fyrir lágu innan stjórnkerfisins á þeim tíma sem um ræðir, sbr. t.d. minnisblað Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins um úrræði stjórnvalda gegn óróleika á fjármálamörkuðum, dags. 1. apríl 2008, og vinnuskjal Seðlabanka Íslands um aðkallandi ákvarðanatöku stjórnvalda vegna hættu á fjármálaáfalli, sem sent var samráðshópi um fjármálastöðugleika og viðbúnað þann 7. júlí 2008. Vekur þetta sérstaka athygli þegar þess er gætt að ég sat fundi með stjórn Seðlabankans þann 1. apríl 2008 og þann 8. júlí 2008. Þetta varð mér þó ekki ljóst fyrr en síðar og að verulegu leyti fyrst í vinnu minni við þessi andmæli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert