Því er lýst í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, hafi hellt sér yfir Tryggva Þór Herbertsson, þáverandi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, í lok september 2008 þegar Tryggvi Þór lýsti efasemdum um að sú leið, sem til stóð að fara við að bjarga Glitni, væri ekki rétt.
„Þegar fundi með fulltrúum Glitnis lauk segist Tryggvi Þór Herbertsson hafa rætt við Geir og sagt að sér litist illa á fyrirliggjandi tillögu. Hafi Tryggvi lagt til að hann myndi ræða við Davíð og gera úrslitatilraun til að sannfæra hann um þetta. Síðan segist Tryggvi hafa beðið Davíð að ræða við sig undir fjögur augu. Hafi þeir því næst farið inn á skrifstofu Davíðs. Við skýrslutöku lýsti Tryggvi samtali sínu og Davíðs með eftirfarandi hætti:
„Ég var rétt byrjaður, þá trylltist hann, sagði að ég væri að grafa undan tillögum hans og sagði: „Þarna situr forsætisráðherra frammi og skelfur eins og lauf í vindi og getur ekki tekið ákvörðun. Hann hlustar á þig og þú ert að grafa undan þessu. Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er.“
Jafnframt sagði hann að ég skyldi ekki hræra í Össuri, þá skyldi hann eiga mig á fæti. Hann var vægast sagt tryllingslegur og mér féll gjörsamlega allur ketill í eldinn. Ég brást við með því að segja að við hefðum verið samherjar til margra ára, ég hefði ekkert annað í huga en framtíð landsins okkar, hann róaðist nokkuð við það en ég sá að hann hugsaði mér þegjandi þörfina.“
Rannsóknarnefndin bar þessi ummæli undir Davíð, sem sagðist vissulega hafa rætt við Tryggva undir fjögur augu. Hann hefði heyrt frá starfsmönnum Seðlabankans að Tryggvi hefði þetta kvöld meðan hann var í bankanum átt símtöl við Jón Ásgeir Jóhannesson þar sem hann hefði lýst fyrir honum tillögum Seðlabankans varðandi Glitni.
Davíð lýsti því fyrir nefndinni að hann hefði af þessum sökum verið Tryggva reiður og sagði að það gæti verið að hann hefði verið hvassyrtur í hans garð. Hann neitaði því hins vegar að hafa látið þau orð falla að hann myndi sjá til þess að Tryggva yrði ólíft á Íslandi. Þess í stað hefði hann sagt: „Og ég sagði við hann að ég mundi sjá til þess, ef hann héldi þessu áfram, að hann færi út úr húsinu og
það yrðu gefin fyrirmæli um það að hann færi ekki inn í það aftur. Ég held að Ísland hafi ekki verið, sko, hann gæti verið á Íslandi en þetta var skýringin.
Og hugmyndir hans, ég var hneykslaður á að hann skyldi vera að ræða af því að hann var í þeim símtölum líka, við Landsbankamenn út úr húsinu sem voru að senda okkur magnþrungnar dellutillögur. Og hann var að berjast fyrir því að við færum um nóttina í sameiningu að Landsbankanum og Glitni og þessu öllu saman sem enginn hafði heildarmynd yfir og var ekki nokkur vinnandi vegur og tóm endaleysa. Það var sú leið sem hann vildi fara.“
Davíð sagði einnig: „Og þegar ég, ég held ég hafi nú ekki tekið svona til orða um Geir, það má vel vera í þessum ham öllum en það var nú þannig reyndar að Össur vildi ganga að þessu plani strax og lýsti því oft yfir, Geir var miklu meira hikandi og ekkert svo sem við það að, yfir því að segja, en ég held að það hafi ekki síst verið þessi hræringur Tryggva í hinum, að það hafi verið fullt af öðrum tillögum. [...] Hann var gerandi með Milestone-mönnum í fullt af hlutum og átti að koma aftur til baka í þessa starfsemi. Mér fannst þetta allt saman mjög óþægilegt [...] og þegar var búið að segja mér þarna áður af mínum starfsmönnum að hann væri hringjandi út að lýsa við „kontakta“ sína í farsíma hvað við værum að ræða þarna inni, þá fannst mér það algjörlega forkastanlegt og undirstrika það sem ég, efasemdir mínar um það að hann gæti komið fram sem fulltrúi forsætisráðherrans gagnvart Seðlabankanum og ætlast til þess að við værum, sýndum honum fulla hreinskilni.
Ég algjörlega hins vegar kaupi það að í öllum þessum látum, að þá hlaut öll stjórnsýsla að fara fyrir lítið í þessum hræringum öllum, en það er samt sem áður, það var óþarfi að vera með eitthvað sem svona blasti við að gat ekki gengið. Og þetta fór í taugarnar á mér, en það getur vel verið að ég hafi verið of hérna hvassyrtur við hann þarna, en mér fannst satt best að segja, þetta var 10–20 manna fundur þar sem þeir voru að tjá sig, ráðherrarnir, og mér fannst óþægilegt fyrir Geir sem, hvað hann var hikandi og óviss og allt það, við hliðina á Össuri sem vissi miklu minna um málið sem var miklu ákveðnari í að fara þessa leið, sko, fljótt og eiginlega strax. Þannig að, og kannski hef ég kennt, að Tryggvi væri eins og maður segir að hræra í honum. Það getur vel verið að ég hafi kennt því um.“