Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra sýndu af sér vanrækslu í starfi og það sama gildir um forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Jónas Fr. Jónsson. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis.
Jafnframt er það niðurstaða rannsóknarnefndar að Davíð Oddsson, Ingimundur Friðriksson og Eiríkur Guðnason, í bankastjórn Seðlabankans, hafi einnig sýnt af sér vanrækslu í starfi. Eins er stjórn Seðlabanka Íslands á þessum tíma sek um að hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi.
Í skýrslu vinnuhóps sem hafði það hlutverk að svara því hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum mætti að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði, kemur fram að víða var pottur brotinn í framkvæmdasýslunni. Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir sátu í vinnuhópnum.
Fjölmiðlar stóðu sig ekki í umfjöllun um fjármálalífið og allt of mikið var byggt á tilkynningum frá bönkunum í stað sjálfstæðrar rannsóknarvinnu.