Vissu um vandann en gerðu ekki neitt

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Á fundi með þremur ráðherrum þann 7. febrúar 2008 dró Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, upp mjög dökka mynd af stöðunni. Hvorki ráðherrarnir þrír sem sátu fundinn né Seðlabankinn komu með neinar tillögur um aðgerðir. Þetta kom fram á blaðamannfundi um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Líkt og bent er á í skýrslunni hrönnuðust óveðurskýin á fyrri hluta ársins 2008. Ráðherrar í ríkisstjórninni einblíndu um og of á ímyndarvanda fjármálastofnanna í stað vandans sjálfs, sagði Páll Hreinsson á fundi með fjölmiðlum. Staða bankanna og lausafjárkreppan var lítið sem ekkert rædd á fundum ríkisstjórnar á fyrri hluta ársins 2008.

Forsætisráðherra, Geir H. Haarde, untanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fjármálaráðherrra, Árni Mathiessen höfðu gleggstar upplýsingar um stöðu mála en gáfu ríkisstjórninni ekki skýrslu um ástandð.

Oddvitar stjórnarflokkanna og fjármálaráðherra funduðu reglulega með bankastjórn Seðlabankans en höfðu ekki fyrir því að upplýsa viðskiptaráðherra um það sem um var rætt á fundunum, að því er fram kom á blaðamannafundi í Iðnó.

  Á vormánuðum 2008 fór að gæta vaxandi efa meðal erlendra seðlabanka um stöðu íslensku bankanna. Breski seðlabankinn neitaði í apríl 2008 að gera gjaldmiðlaskiptasamning við íslenska bankann. Sá breski bauðst hins vegar til þess að aðstoða við að minnka íslenska bankakerfið en Seðlabanki Íslands svaraði ekki þessu boði og ítrekaði beiðni um gjaldmiðlaskiptasamning. Á þessum tíma vildu ekki aðrir gera slíka samninga við Ísland aðrir en norrænir seðlabankar gegn loforði um að reynt yrðu að minnka umsvif íslensku bankanna.

Hinn 3. mars 2008 funduðu Davíð Oddsson og Ingimundur Friðriksson með forsvarsmönnum Seðlabanka Bretlands. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur undir höndum minnisblað Seðlabanka Íslands frá fundinum, dags. 5. mars 2008. Í minnisblaðinu segir að bresk yfirvöld telji að hraður vöxtur banka geti verið áhyggjuefni og að hratt vaxandi innlán séu ótryggari en önnur. Fram kemur að Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, hafi lagt „áherslu á að staða bankanna væri býsna góð“ og að „lausafjárstaða þeirra væri rúm“.

Haft er eftir Davíð að bankarnir þurfi jafnvel ekki að sækja á lánamarkað að öðru óbreyttu í eitt ár.

Síðar í minnisblaðinu segir: „Ráða mátti af orðum forsvarsmanna Bank of England að þeir hefðu ekki nægar upplýsingar til þess að meta rétt stöðu íslensku bankanna. Þeir töldu t.d. að innlán sem safnað er í Bretlandi væru meira og minna notuð til þess að fjármagna hraðan vöxt útlána á Íslandi.“ Síðar segir eftirfarandi: „Þeir spurðu hvort Seðlabankinn myndi veita þrautavaralán ef á reyndi. Því var svarað að yfirlýsingar hefðu aldrei verið gefnar um slíkt en auðvitað myndi Seðlabankinn hugleiða slíkt í fullri alvöru. Þá væri augljóst að Seðlabankinn væri fyrst og fremst lánveitandi til þrautavara í eigin gjaldmiðli og var það m.a. tekið fram í svari við spurningu Mervyn King um hvort Seðlabankinn gæti veitt lán í öðrum gjaldmiðli líka.“

Síðan segir: „Augljóst var af orðum forsvarsmanna Bank of England að þeir voru uppteknir af mögulegum afleiðingum þess að mikið yrði tekið út af reikningum í bönkum, þ.m.t. Landsbanka Íslands í London.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert