Ákvæði um ráðherraábyrgð og Landsdóm duga

Níu þingmenn eru í nefndinni sem fundar tvisvar í viku …
Níu þingmenn eru í nefndinni sem fundar tvisvar í viku og hefur þegar haldið fimmtán fundi. Hún hitti rannsóknarnefndina í morgun. mbl.is/Ernir

Atli Gíslason, formaður þingmannanefndar sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sagði á Alþingi í dag að ákvæði um ráðherraábyrgð og Landsdóm dugi, þó gömul séu. Var það niðurstaðan eftir vandlega athugun á ýmsum vafamálum.

Atli sagði mikla samstöðu innan nefndarinnar og fjórtán funda undirbúningur hafi gefist einkar vel. Kallaðir hafi verið til sérfræðingar og farið yfir lagareglur á Norðurlöndum. Meðal annars var farið yfir Tamílamálið í Danmörku og ítarlegum gögnum viðað að. Atli segir að nefndin hafi heitið því að vinna faglega að málinu og af hlutlægni.

Nefndin fundar tvisvar í viku og fundaði m.a. í morgun með rannsóknarnefnd Alþingis. Næsti fundur er fyrirhugaður á föstudag, einnig með rannsóknarnefndinni. Atli segir að einnig sé ráðgert að funda með siðanefndinni, sem hafi gefið frá sér jafn mikilvæga og vandaða skýrslu og rannsóknarnefndin.

Eitt helsta álitamálið og hugsanlega það flóknasta varðar það, hvort ráðherraábyrgð kunni að vera. Þá fari nefndin úr sporum hefðbundinnar þingmannanefndar yfir í það að vera ákæruvald. Atli segir að þá verði að stíga varlega til jarðar og vanda alla skoðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert