Hafist hefur verið handa við skeringar í Eyrarhlíð en þar á að leggja háspennustreng frá Bolungarvík, í gegnum Bolungarvíkurgöng, meðfram Hnífsdalsvegi og upp í spennustöðina í Stóruurð. Mun það auka raforkuöryggi á svæðinu til muna þar sem háspennulína yfir fjöll leggst af. KNH vinnur að verkinu.
„Þetta er lítið og einfalt verk,
undirbúningsvinna fyrir sumarið til að flýta fyrir,“ segir Sigurður
Óskarsson, framkvæmdastjóri KNH. Verkinu á að vera lokið 10. maí en þá
verður lagning göngustígs boðin út. „Við ætlum að nýta okkur þessa
framkvæmd og fáum þarna í kaupbæti vandaðan göngustíg sem lagður verður
ofan á skurðinn. Ef bærinn ætlaði að fara út í slíka framkvæmd að skera
út fyrir stíg á eigin vegum yrði það afar dýrt,“ segir Halldór
Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í samtali við bb.is fyrir
skemmstu.
Um er að ræða fyrsta áfanga verksins. Helstu magntölur
eru bergskeringar um 2.500 m3, skering í laus jarðlög um 22.000 m3,
grjótvörn um 3.000 m3 og grjóthleðsla um 150 m2.