Ábyrgð Samfylkingarinnar á bankahruninu liggur m.a. í því að hafa treyst um of á upplýsingar sem fyrir lágu um stöðu og lífvænleika bankakerfisins, segir Skúli Helgason í grein sem hann birtir á Pressunni. Flokkurinn hafi ennfremur vanmetið umfang vandans og hve nærri hengifluginu fjármálakerfið var vorið 2007. Með þessu hafi Samfylkingin látið hjá líða að móta og grípa til þeirra róttæku viðbragðsáætlana sem hefðu dregið úr skaðanum fyrir þjóðina af yfirvofandi bankakreppu.
„Það er niðurstaða Rannsóknarnefndarinnar að síðasta tækifærið til að koma í veg fyrir fall bankanna hafi gefist árið 2006 en ríkisstjórnin sem mynduð var vorið 2007hefði þurft að grípa hratt til aðgerða til að draga úr afleiðingunum af bankakreppunni fyrir fólkið í landinu. Það var ekki gert í fyrsta lagi vegna skorts á yfirsýn um alvarlega stöðu fjármálakerfisins, í öðru lagi vegna meðvirkni gagnvart brothættri ímynd fjármálakerfisins, og í þriðja lagi vegna þeirrar hugmyndafræði afskiptaleysis gagnvart markaði sem mótaði pólitíska sýn samstarfsflokksins í ríkisstjórn,“ segir í grein Skúla.