Göngubrú við Gígjökul er komin á kaf og líklega farinn. Búist er við að skot komi í Markarfljót á næstu mínútum. Lögreglan beinir því til bænda og annarra sem fengu að fara inn á svæðið í morgun að yfirgefa það strax.
Lögreglan er búin að loka svæðinu og beinir öllum frá ánni.
Vatnamælingamenn eru núna á leiðinni frá Reykjavík að Markarfljóti. Enginn sjálfvirkur mælir er í ánni. Gunnar Sigurðsson vatnamælingamaður segir að tekið verði sýni úr ánni. Hann segir engan vatnamælingamann vera við Gígjökul. Þar sé hættulegt að vera. Hann segir stutt í að mælirinn þar fari á kaf.
Talið er að rennslið úr ánni sé 1000 rúmmetrar á sekúndu.
Ef það kemur stórt hlaup í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli má búast við að varnargarðar í Fljótshlíð láti undan og vatn fari niður Markarfljótsaurar. Kjartan Þorkelsson sýslumaður segir að þetta sé ein af ástæðunum fyrir þeim víðtæku rýmingu sem ákveðnar voru í nótt.
„Það er vitað að ef það kemur stórt hlaup þá þola varnargarðarnir í Fljótshlíð það ekki. Þeir munu þá láta undan,“ segir Kjartan. Hann segir að hlaupið muni þá fara niður Fljótshlíð og í gamla árfarvegi. Mannvirki sem stand lágt séu í hættu ef þessi atburðarrás gangi eftir.