Fréttastofa CNN hyggst senda beint frá gosstöðvum á Íslandi í gegnum vefmyndavélar Mílu. En fyrirtækið hefur, frá eldgosið hófst í Eyjafjallajökli 20. mars sl., komið myndavélum fyrir víðsvegar kringum gosið og sent þannig beint frá gosinu í gegnum netið.
Myndavélarnar hafa vakið mikla athygli hér heima sem erlendis, og eru heimsóknir á síðuna yfir milljón talsins og koma frá 150 löndum. Í dag hafði síðan fréttastofa CNN samband við Mílu og óskaði eftir að fá aðgengi að vefmyndavélunum til að geta sýnt beint frá gosstöðvunum á Íslandi á fréttavef CNN. Það leyfi var veitt og er nú myndavélin sem staðsett er á Valahnúk aðgengileg á fréttavef CNN.
CNN hefur fjallað um gosið á fréttasíðu sinni, þar sem rætt er við Rögnvald Ólafsson. Þar kemur fram að 800 manns hafi þurft að yfirgefa heimili sín vegna gossins sem hófst aftur í nótt í Eyjafjallajökli. Í framhaldi af því var haft samband við Mílu þar sem myndavélarnar voru settar í loftið í gegnum fréttasíðu CNN.
„Þetta er mikil kynning fyrir Ísland að fá þessar vélar í loftið í gegnum svo þekktan fréttavef sem CNN fréttavefurinn er. Mikill áhugi virðist vera fyrir gosinu erlendis og hefur aðgengi að upplýsingum um gosið stórbatnað með því að veita CNN aðgengi að myndavélum Mílu. Vefsíðan hefur sannarlega sannað gildi sitt sem upplýsingaveita fyrir áhugasama, hvar sem þeir eru staddir í heiminum,“ segir í fréttatilkynningu frá Mílu.