Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, mun funda með rektorum háskóla landsins um þær niðurstöður sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hún segir að draga þurfi saman hvernig þeir hyggist bregðast við áliti skýrsluhöfunda.
Ráðherra lét þessi orð falla í umræðu um skýrslu rannsóknarnefndarinnar á Alþingi í dag. Katrín fór sérstaklega yfir 8. bindi skýrslunnar, þ.e. siðfræðihlutann, en þar er m.a. skrifað um háskólasamfélagið.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom upp til andsvara og sagði ljóst að „allt þetta unga fólk sem komið hefur úr háskólunum hafi ekki haft nægilegt siðferði eða samfélagskennd til að vega hvað sé rétt og rangt.“ Hann spurði í kjölfarið hvort háskólinn þurfi ekki, líkt og bílaframleiðandinn Toyota, að innkalla þessar gölluðu vörur og krefjast sérstaks siðfræðináms.
Katrín sagðist efast um að hægt sé að innkalla prófin en háskólasamfélagið verði vissulega að læra af þessu. Einnig sagði hún ljóst að þetta tengist jafnvel almennri siðfræðikennslu, og þannig kennslu í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum auk háskólum. Benti hún á að, þó svo komið hafi fram að bæta megi lagaumhverfið snúist vandinn einnig um að fólk virti ekki lög og reglur eða leitaði allra leiða til að komast framhjá þeim. Þetta sagði hún alvarlegt mál sem þurfi að huga að.
Katrín fór ágætlega yfir það sem kemur fram í 8. bindi, þ.e. siðfræðihlutanum, og sagði lesturinn sláandi. „Það sem slær mann ekki minnst er það mat, að reynsla skipti ekki máli,“ sagði Katrín og vísaði í að stjórnendur bankanna voru ungir menn án reynslu af hefðbundnum bankastörfum. Hún sagði að af þessu verði að læra, s.s. að meta reynsluna að verðleikum. Það hafi ekki verið raunin í okkar æskudýrkandi samfélagi.
Jafnframt sagði Katrín að margt í skýrslunni kalli á sérstakar umræður, ekki aðeins í þinginu heldur úti í samfélaginu.
Hvað varðar háskólasamfélagið sagði Katrín m.a., að fara þurfi yfir styrkveitingar til háskólanna frá fyrirtækjum en á sama tíma sinna sjálfstæðum rannsóknum. Hún sagði líka að háskólasamfélagið þurfi að vera virkara í umræðum um álitamál.