Gröfumaðurinn bjargaði miklu

Bændur hafa orðið fyrir talsverðu tjóni af völdum flóðsins.
Bændur hafa orðið fyrir talsverðu tjóni af völdum flóðsins. mbl.is Ómar Óskarsson

Talið er að þakka megi snarræði gröfumannsins sem rauf skarð í veginn við Markarfljótsbrú því að ekki varð enn meira tjón í flóðinu. Talið er að ekki hafi orðið skemmdir á brúnni vegna þess að tókst að rjúfa skörð í veginn.

Bændur á svæðinu bera mikið lof á Guðjón Sveinsson gröfumann frá Uxahrygg á Rangárvöllum og segja að hann hafi forðað því að hlaupið olli ekki meira tjóni. Guðjón rauf þrjú skörð í veginn til að auðvelda hlaupinu að komast áfram og létti þannig þrýstingi á brúna.

Þegar Guðjón var að rjúfa skarð númer tvö sá hann að bylgja kom að honum. Hann hélt samt áfram að grafa, en þegar hann leit við sá hann að önnur og enn stærri bylgja var að koma. Þá bakkaði hann vélinni í snarheitum á öruggan stað og hóf að grafa þriðja skarðið í veginn.

Guðjón er núna að moka möl í áveituskarð í um 100 ára gömlum varnargarði við Markarfljót.

Vatn fór upp á miðja glugga

Það er hins vegar ljóst að talsvert tjón hefur orðið í flóðinu. Flætt hefur yfir tún á bæjum upp með Markarfljóti. Hlaupvatn fór einnig yfir tún á Þorvaldeyri.  Ennfremur er ljóst að tjón hefur orðið á sumarbústöðum. Bændur á svæðinu segjast hafa séð vatn sem náði upp á miðja glugga í einum sumarbústað við Markarfljót.

Ekki er vitað hversu mikið tjón varð við Þorvaldseyri en ljóst er að heitavatnsleiðsla fór í sundur. Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri segir að það komi í ljós síðar í dag hvort vatnsleiðsla hefur líka farið í sundur. Hann veit heldur ekki um ástandið á heimarafstöð við bæinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert