Hætta á sprengigosi

Eyjafjallajökull.
Eyjafjallajökull. mbl.is/RAX

„Það er allt sem hefur bent til þess, í tvo til þrjá mánuði, að aðalhreyfingin á kviku er beint undir Gígjöklinum á miklu dýpi,“ segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is. Gígurinn sé ansi stór, eða um fimm kílómetrar í þvermál og fullur af ís. 

Nú sé byrjað að bráðna og kvika komin undir ísinn. „Þegar það bræðir sig í gegn er hætta á sprengigosi,“ segir Haraldur, en kvikan sé mögulega svipuð Eyjafjallajökulsgosinu 1821. Það hafi verið líparítkvika, sem sé hærra í fjallinu og súrari og ólík kvikunni á Fimmvörðuhálsi, sem hafi myndað hraun. „Hún veldur sprengigosum,“ segir Haraldur. Þá yrði hugsanlega öskufall yfir nærliggjandi svæði. 

Aðspurður segir Haraldur að þá gæti komið myndarlegur gjóskustrókur, svipað Heklugosum. Hann tekur hins vegar fram að eins og staðan sé núna sé aðeins um ágiskanir að ræða.

„Ef að mikill ís bráðnar í Gígjöklinum þá léttir það á þrýstingi á kvikunni og þá getur hún aukist og orðið sprengigos út frá því. Líka þegar vatn og kvika kemur saman í gígnum, þá verða sprengigos af annarri tegund eða gufusprengingar. Það er því margt sem gæti farið að gerast núna,“ segir Haraldur.

„Allar götur síðan í janúar hefur skjálftavirknin verið mest undir Gígjöklinum, undir miðjum Eyjafjallajökli. Svo skaust hún til hliðar, 20. mars, yfir Fimmvörðuháls,“ segir Haraldur. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert