„Þetta er engu líkt og ótrúlegt að sjá þetta,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, sem er að skoða aðstæður á bæ sínum. Hann hefur orðið fyrir mjög miklu tjóni. Leiðslur fyrir heitt vatn og kalt vatn eru í sundur. Sama á við um rafmagnsleiðslu.
Um 200 kýr eru á Þorvaldseyri og er fjósið vatnslaust. Það eitt og sér er mjög alvarlegt því að kúm líður illa ef þær fá ekki vatn. Nytin í kúnum dettur fljótt niður ef ekki tekst að útvega þeim vatn. Um þúsund lítrar af mjólk eru framleiddir í fjósinu á Þorvaldseyri á dag.
Heitavatnsleiðslan á Þorvaldseyri hefur ennfremur bútast í sundur í flóðinu. Heimarafstöð er í gili ofan við bæinn. Ekki er vitað um ástandið á henni en rafmagnsleiðsla sem liggur frá stöðinni hefur farið í sundur.
Varnargarðar við bæinn hafa sópast í burtu. Íshröngl, grjót og aur er um allt. Tjón á túnum er þó minna en óttast var eftir hlaupið í Svaðbælisá. Vatnið er farið að sjatna í ánni en þar er þó enn mikið vatn.
Gil ofan við bæinn hefur hálffyllst af grjóti sem sýnir vel hversu gríðarlegir kraftar fylgdu flóðinu.
Ólafur og sonur hans eru enn að meta stöðuna, en ljóst er að forgangsmál hjá þeim er að tryggja kúnum á bænum aðgang að vatni.