Mikill viðbúnaður vegna réttarhalds

Lögreglumenn eru við öllu búnir vegna þinghalds í máli gegn …
Lögreglumenn eru við öllu búnir vegna þinghalds í máli gegn mótmælendum. RAX / Ragnar Axelsson

Lögregla höfuðborgarsvæðisins er með mikinn viðbúnað við Héraðsdóm Reykjavíkur vegna þinghalds í máli ákæruvaldsins gegn níu einstaklingum sem réðust inn í Alþingishúsið í desember 2008. Samkvæmt upplýsingum úr dómshúsinu er fullt út úr dyrum í dómsal 1, en allt farið fram með ró og spekt.

Í ákæruskjali er mótmælendum gefið að sök að hafa veist að sex þingvörðum og lögreglumanni með ofbeldi, hótun um ofbeldi og ofríki í þeim tilgangi að komast upp á þingpalla. Einn þingvarða slasaðist sýnu mest; hlaut tognun á hálsi, hálshrygg, brjóst- og lendhrygg og mar á brjóstkassa

Allir sakborningar eru ákærðir fyrir brot gegn Alþingi, brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu, og húsbrot með því að hafa, þann 8. desember 2008, ásamt hópi óþekktra manna, í heimildarleysi ruðst inn í Alþingishúsið við Austurvöll meðan á þingfundi stóð.

Síðast var ákært fyrir brot gegn Alþingi árið 1949. Refsing við brotinu er fangelsi ekki skemur en eitt ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert