Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur fylgst með hlaupinu í Markarfljóti. Hann segir mikilvægt að takist að bjarga nýju brúnni yfir fljótið.
Steingrímur J. er menntaður jarðfræðingur og sagðist hafa haft áhuga á að fylgjast með hamförunum. Hann fór af stað austur snemma í morgun og hitti á Hellu jarðvísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskólans, m.a. Sigurð Reyni Gíslason skólabróður sinn.
Þeir náðu að komast yfir brúna stuttu áður en veginum var lokað. Steingrímur sagði í samtali við mbl.is að mikilvægt væri að bjarga Markarfljótsbrú. „Vegspottarnir við brúna skipta litlu máli, en það er mikilvægt að bjarga brúnni.“ Steingrímur sagði ljóst að það hefði verið rétt og nauðsynleg ákvörðun að rjúfa þjóðveginn austan við brúna. Eins hefði það létt þrýstingi á brúna að skarð rofnaði í varnargarð austanmegin. Það varð til þess að vatn flætti austur að veginum inn í Þórsmörk.
Steingrímur er núna innilokaður austan við Markarfljót og ekki ljóst hvernig hann kemst heim. Hann sagðist ekki hafa neinar áhyggjur af því.