„Við erum í viðbragðsstöðu og fylgjumst vel með málum, en þessar fréttir kalla að svo stöddu ekki á aukinn viðbúnað,“ segir Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli, um fréttir þess efnis að gufubólstrar hafi sést fyrir ofan Eyjafjallajökul auk þess sem rennsli undir Gígjökli hafi aukist um 30-40 sm í lón norðan við Eyjafjallajökul. Að sögn Kjartans fellur vatnið í Markarfljót.
Kjartan bendir á að bændum hafi fyrr í morgun verið hleypt heim til að sinna búfénaði sínu. „Við erum með það undir eftirliti auk þess sem öll umferð á svæðinu er undir eftirliti, sem þýðir að við getum breytt því um leið og ástæða er til ef það koma frekari upplýsingar,“ segir Kjartan.
Að sögn Kjartans bíða menn þess m.a. að fá upplýsingar frá Magnúsi Tuma Guðmundssyni, jarðeðlisfræðingi, sem er um borð í flugvél Landhelgisgæslunnar sem lögð er af stað í könnunarflug yfir svæðið. „Við fáum vonandi fljótlega fréttir um hvar í jöklinum gosið er og þá getum við tekið svolítið mið af því.“