Hlaupið er komið að Markarfljótsbrú og hefur rofið skarð í varnargarðinn austan við ána. Vegagerðarmenn náðu að rjúfa skarð í veginn og þar spýtist jökulvatn af miklum krafti. Vegagerðarmenn ætla sér að rjúfa þrjú skörð í veginn.
Rúnar Pálmason blaðamaður er við Markarfljótsbrú og segir að það vaxi stöðugt í ánni. Vatnið sé ekki komið upp í brúargólfið en það sé stutt í það. Um hádegisbil náði hlaupið að rjúfa skarð í varnargarð austan við ána. Vatn streymir núna upp að veginum í Þórsmörk.
Skarð var rofið í veginn um 50 metra austan við brúna. Mikil kraftur er í hlaupinu og spýtist nú vatn um skarðið. Vatnið er farið að flæða yfir varnargarða austan megin við Markarfljótsbrú.
Vegagerðarmenn rufu annað skarð í veginn austan við varnargarðinn og ætla sér að rjúfa þriðja skarðið í veginn til að létta á straumnum og auka líkur á að brúin standi flóðið af sér. Hlaupið sér sjálft um að stækka skörðin. Allar eyrar við brúna eru komnar á kaf.
Í tilkuynningu frá almannavörnum segir að vatnsmagn frá eldstöðinni í toppi Eyjafjallajökuls sé mikið og gosið miklu stærra en gosið á Fimmvörðuhálsi. „Gossprungan er núna um tveggja kílómetra löng og liggur norður - vestur. Vatn fer til norðurs og suðurs og getur auðveldlega farið yfir varnargarðana á Markarfljótsaurum. Þjóðvegur 1 er í hættu á að rofna undir Eyjafjöllum. Loftfar á vegum Landhelgisgæslu verður yfir gosstöðvunum í dag og um borð verða jarðvísindamenn og sérfræðingar frá Vatnamælingum.“