Þorvaldur Garðar Kristjánsson látinn

Þorvaldur Garðar Kristjánsson
Þorvaldur Garðar Kristjánsson mbl.is

Þorvaldur Garðar Kristjánsson fyrrverandi alþingismaður andaðist í dag, 90 ára að aldri.
Þorvaldur var fæddur á Kirkjubóli í Valþjófsdal í Önundarfirði 10. október árið 1919. Foreldrar hans voru Kristján Sigurður Eyjólfsson formaður og María Bjargey Einarsdóttir húsmóðir.
Þorvaldur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1944 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1948. Hann var forstöðumaður hagdeildar  Útvegsbanka Íslands á árunum 1950-1960, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins 1961-1972 og framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1972-1983.
 Þorvaldur var kjörinn á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Vestur-Ísafjarðarsýslu árið 1959. Hann var alþingismaður Vestfirðinga árin 1963-1967 og 1971-1991.
 Hann var forseti Efri deildar þingsins á árunum 1974-1978 og 1978-1979 og forseti Sameinaðs þings 1983-1988.
 Þorvaldur gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum. Hann var formaður Orators, félags laganema, 1946-1947, formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1949-1950 og formaður Heimdallar 1954-1956. Þá var hann formaður  Landsmálafélagsins Varðar 1956-1960. Hann sat í húsnæðismálastjórn 1955-1957 og 1962-1970 og í stjórn Byggingarsjóðs verkamanna 1957-1970. Í útvarpsráði 1956-1975 og var borgarfulltrúi í Reykjavík 1958-1962. Þá átti Þorvaldur sæti í flugráði á árunum 1964-1967, sat í  miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1969-1971 og í orkuráði 1975-1991, þar af formaður árin 1975-1979 og 1983-1991.
Eiginkona Þorvaldar hét Elísabet María Kvaran. Hún lést árið 2006. Dóttir þeirra er Elísabet Ingibjörg.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert