Fjölgun þeirra sem fá fjárhagsaðstoð í Reykjavíkurborg fjölgaði um 19% milli áranna 2008 og 2009, eftir að hafa farið lækkandi um langt árabil. Sambærilegar tölur fyrir landið allt liggja ekki enn fyrir. Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðherra við spurningu um lágmarksframfærslu.
Anna Pála Sverrisdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, spurði félagamálaráðherra út í framfærsluna og hvort ráðherrann telji að setja eigi opinber viðmið eða lög um lágmarksframfærslu.
Í svari Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra segir að starfshópur sem viðskiptaráðherra skipaði í árslok 2004 vann forkönnun á því hvort framkvæmanlegt væri að semja neysluviðmið á Íslandi. Nefndin skilaði skýrslu í október 2006.
„Helstu niðurstöður hennar voru að gerð neysluviðmiðs á Íslandi sé vel framkvæmanlegt og skyldi það byggjast á upplýsingum sem safnað er í neyslukönnun Hagstofunnar. [...] Var meðal annars nefndur til sögunnar vinnusparnaður hjá opinberum aðilum og fjármálastofnunum og minna útlánatap hjá fjármálastofnunum vegna betra viðmiðs, minni kostnaður vegna vanskila sökum bættrar fjármálaráðgjafar og skilvirkari og markvissari ákvarðanataka ríkis og sveitarfélaga vegna málefna sem varða fjármál einstaklinga og heimila í landinu.“
Árni Páll segir að með hliðsjón af því sýnist ótvíræður ávinningur af því að tekið verði upp opinbert viðmið um lágmarksframfærslu hér á landi. Að því verði unnið af hálfu félags- og tryggingamálaráðuneytisins og í því samhengi tekið til skoðunar hvernig tillagan fellur að hlutverki umboðsmanns skuldara, sbr. frumvarp til laga um umboðsmann skuldara sem lagt hefur verið fram.